136. löggjafarþing — 69. fundur,  20. jan. 2009.

álit umboðsmanns um skipan dómara.

[14:05]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég hef farið yfir þær athugasemdir sem umboðsmaður Alþingis gerir við málsmeðferð í þessu tiltekna máli. Þetta eru umhugsunarverðir hlutir sem hann nefnir, þetta eru álitamál sem þurfti að taka á þegar verið var að vinna málið. Í stjórnsýslurétti er unnið eftir almennum reglum en ekki eftir nákvæmum reglum og því þarf oft að kveða upp úr um hvernig eigi að gera hlutina og oft er ekki hægt að segja alveg fyrir um það fyrir fram hvernig nákvæmlega hefði átt að fara að.

Embætti umboðsmanns Alþingis hefur það hlutverk að hafa eftirlit með embættisfærslum í stjórnsýslunni og ef hann gerir athugasemdir við þær þá tökum við tillit til þess í embættisfærslum okkar í framtíðinni. Í þessu máli sér hann annmarka en hann hefur hins vegar ekki kveðið upp úr um embættisfærsluna sjálfa eða niðurstöðuna. Og ég segi það, og ég hef gert það undantekningalaust, að þegar athugasemdir hafa borist frá umboðsmanni Alþingis hef ég leitast við það í framhaldinu að fara eftir þeim og haga embættisfærslunum í þá veru eins og hann túlkar stjórnsýslulögin sem þar er um að ræða. (Gripið fram í: Ætlarðu að segja af þér?)