136. löggjafarþing — 69. fundur,  20. jan. 2009.

álit umboðsmanns um skipan dómara.

[14:08]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Það var út af fyrir sig nægur tími til þess að vinna málið en eins og hv. þingmaður sjálfsagt veit taldi umboðsmaður Alþingis að þeir annmarkar sem hann talar um á málinu væru ekki þess eðlis að þeir leiddu til ógildingar á embættisverkinu, sem út af fyrir sig segir sína sögu.

Ég endurtek það sem ég sagði áðan, að þegar verið er að skipa menn í embætti þarf alltaf að taka afstöðu til ákveðinna hluta og það þarf ráðherrann sem skipar í embættið að gera og ég gerði það. Það lá ekki í augum uppi að athugasemdir gætu verið gerðar við þá hluti sem þar var um að ræða. Þegar athugasemdir umboðsmannsins (Gripið fram í.) liggja fyrir eftir á verða þær auðvitað hafðar til hliðsjónar og farið eftir þeim í framtíðinni þegar sams konar verk verða unnin. En eins og ég sagði áðan taldi umboðsmaður þetta ekki leiða til ógildingar á verkinu, og, herra forseti, ég hef ekki hugsað mér að segja af mér vegna þessa.