136. löggjafarþing — 69. fundur,  20. jan. 2009.

greiðsluvandi einstaklinga og fyrirtækja.

[14:10]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Herra forseti. Óveður ríkir í íslensku efnahagslífi. Það er neyðarástand á þúsundum heimila í landinu og gjaldþrot blasir við mörgum. Atvinnulausir eru orðnir yfir tíu þúsund og enn fleiri ráða ekki við greiðslubyrði sína. Fjöldi fyrirtækja á í miklum greiðsluerfiðleikum og það var sláandi að sjá spá Creditinfo Ísland um það að á fjórða þúsund fyrirtækja yrðu gjaldþrota á næstunni.

Viðbrögð stjórnvalda við ástandinu hafa verið að hækka skatta, auka álögur í formi þjónustugjalda, kjaraskerðing, uppsagnir opinberra starfsmanna og nú síðast handstökuskipanir á hendur einstaklingum sem virðast hafa gert það eitt af sér að skulda ekki nógu mikið. Til að koma í veg fyrir þá flóðbylgju gjaldþrota sem blasir við og leggja mun líf þúsunda fjölskyldna í rúst verður að grípa til aðgerða strax og aðstoða fólk úr öngstrætinu.

Hæstv. dómsmálaráðherra sagði að ríkisstjórnin hafi loksins hreyft sig eftir tveggja ára bið og ákveðið að leggja fram frumvarp um greiðsluaðlögun. En hvað svo? Mun málið stöðvast í þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna? Og hvað með aðrar aðgerðir til aðstoðar fólki og fyrirtækjum í landinu? Verður t.d. stuðningur við Ráðgjafarstofu heimilanna aukinn og verður kannski sett á stofn ráðgjafarstofa fyrir fyrirtækin þannig að þau hafi eitthvert að leita?

Því spyr ég hæstv. viðskiptaráðherra hvort hann og ríkisstjórnin ætli að sofa áfram þyrnirósarsvefni gagnvart þeim geysilega greiðsluvanda sem blasir við einstaklingum og fyrirtækjum í landinu eða hyggst hann grípa til aðgerða og tryggja að fólk hafi möguleika á því að lifa hérna áfram?