136. löggjafarþing — 69. fundur,  20. jan. 2009.

mál á dagskrá -- framhald þingfundar.

[14:23]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Hæstv. forseta er það auðvitað alveg jafnljóst og okkur hinum sem sitjum í þessum sal að hvorki er vinnufriður né andrúmsloft til að vinna í húsinu í dag. Ég óska eftir því að hæstv. forseti sýni þjóðinni sem stendur fyrir utan húsið og ber bumbur þann skilning að fresta fundinum hér og nú. Þetta er vanhæf ríkisstjórn sem fólkið úti mótmælir. Við eigum að sýna fólkinu, sem þarna stendur og er íslenska þjóðin, skilning og virðingu. Við erum kosin af því og við getum alveg sest niður yfir það hvort við setjum ekki betri dagskrá þar sem rædd verða brýnni málefni en þau sem hér á að ræða.

Hæstv. forseti. Ég tel vinnufriðinn vera úti í dag. Ég verð að segja fyrir sjálfa mig að ég hef ekki lyst á að sitja hér mikið lengur í dag. Ástandið er með þeim hætti, bæði fyrir utan húsið og inni í því, að ég tel það sanngjarna ósk að hæstv. forseti fresti fundinum.