136. löggjafarþing — 69. fundur,  20. jan. 2009.

mál á dagskrá -- framhald þingfundar.

[14:24]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég held að við hljótum að geta orðið sammála um að heldur óskemmtilegar aðstæður eru til að halda fram fundi. Hörð mótmæli þúsunda eru allt í kringum Alþingishúsið, táragasi hefur verið beitt og fólk hefur verið handtekið og hér heyrist varla mannsins mál þannig að ég held að forseti ætti að íhuga mjög vel hvort ekki væri hyggilegt að taka af dagskrá fundarins þau mál sem þar eru enn og standa öðruvísi að upphafi funda í framhaldinu.

Ég vil hrósa hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni fyrir að draga mál sitt af dagskrá og hef velt fyrir mér hvort hann eða einhverjir af flutningsmönnum málsins hafi velt fyrir sér að afturkalla stuðning sinn við málið í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu. Því miður er ærin ástæða til að hafa áhyggjur af því hvernig ástandið í þjóðfélaginu kemur til með að verka bæði félagslega og andlega. Eitt af því sem mjög margir hafa áhyggjur af er hætta á auknu heimilisofbeldi og hlutum af því tagi sem varla stendur til (Forseti hringir.) að bæta með því að setja brennivín í allar búðir landsins þannig að ég skora á hv. þingmenn, flutningsmenn þessa máls, hvern fyrir sig og alla í senn (Forseti hringir.) að velta nú fyrir sér hvort þeir geti ekki séð sóma (Forseti hringir.) sinn bestan í því að afturkalla stuðning sinn við málið.