136. löggjafarþing — 69. fundur,  20. jan. 2009.

framhald þingfundar.

[14:51]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég vísa til umræðna sem urðu fyrr á þessum fundi þar sem við lögðum til við virðulegan forseta að dagskrá fundarins yrði einfaldlega tæmd, þ.e. þau mál tekin út af dagskrá sem ekki ber brýna nauðsyn til að ræða í dag vegna aðstæðna við upphaf þingfundar og óánægju með þá dagskrá sem upp var sett eins og fram hefur komið. Þó að þau mál sem eftir eru á dagskránni séu góðra gjalda verð, þar á meðal það sem forseti ætlar að taka næst fyrir, 6. dagskrármálið, þá óska ég eftir því að það verði tekið út af dagskrá og rætt síðar, sett á dagskrá á næsta fundi þar sem þingmannamál verða til umfjöllunar. Nú hafa verið rædd þau tvö stjórnarfrumvörp sem voru fremst á dagskrá fundarins og þeim vísað til nefndar. Með fullri virðingu leyfi ég mér að segja að ég held að öll þau mál sem þar eru á eftir séu ekki þannig tímabundin eða brýn að miklu máli skipti að þau séu endilega rædd í dag við þessar óvenjulegu aðstæður. Ég held að það væri skynsamlegt og betri svipur á því að láta hér staðar numið og taka þessi mál fyrir síðar við skemmtilegri aðstæður en eru til fundahalda á Alþingi Íslendinga í dag.