136. löggjafarþing — 69. fundur,  20. jan. 2009.

stjórnarskipunarlög.

58. mál
[15:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Eftir fall bankanna í haust hefur orðið mikil gerjun í þjóðfélaginu, mótmælafundir iðulega og mikil pólitísk umræða. Ég tel það mjög jákvætt, frú forseti. Ég held að við eigum að nýta okkur það sem kemur út úr þeirri umræðu og þess vegna finnst mér þetta frumvarp og umræða um það í dag alveg sérstaklega vel til fallið vegna þess að það fjallar um samskipti löggjafarvaldsins, þess hluta ríkisvaldsins sem almenningur kýs, og framkvæmdarvaldsins, þess hluta ríkisins sem framkvæmir en er ekki kosinn en situr í skjóli Alþingis. Ég tel mjög mikilvægt að við ræðum einmitt þetta.

Varðandi fyrsta atriðið sem hv. þingmaður nefndi og kemur fram í frumvarpinu um að heimild til bráðabirgðalaga verði felld niður þá vara ég við því vegna þess, frú forseti, að upp geta komið aðstæður, og það ættum við að hafa séð núna í haust, það geta komið upp aðstæður sem krefjast mjög snöggra viðbragða. Ég nefni til dæmis eitthvert svona hrun eða fall. Ég nefni jarðskjálfta, eldgos, hernað, hryðjuverk eða eitthvað slíkt sem gerir það að verkum að Alþingi getur ekki komið saman nægilega fljótt til þess að bregðast við.

Hins vegar er ég alveg sammála hv. þingmanni um að það þarf að þrengja þetta enn frekar. Ég sting upp á því að menn skoði þá hugsun að í staðinn fyrir að segja: Ekki mega þau þó, þ.e. bráðabirgðalögin, brjóta í bága við stjórnarskrána. Ætíð skulu þau lögð fyrir Alþingi þegar það er saman komið á ný, þ.e. að í stað þessarar síðustu setningar standi: Ætíð skulu þau lögð fyrir Alþingi sem koma skal saman eins fljótt og unnt er. Það mundi þýða að ef unnt er að kveðja Alþingi saman þannig að það geti fjallað um málið þá þarf ekki að gefa út bráðabirgðalög. Ef hins vegar er ekki unnt að kveðja Alþingi saman þá skuli gefa út bráðabirgðalög en þá skuli Alþingi kallað saman eins fljótt og hægt er. Ég held að þetta mundi mæta þeirri þörf sem ég tel að sé fyrir bráðabirgðalög í algjörum undantekningartilfellum, frú forseti.

Varðandi það að að ráðherra sé ekki þingmaður þá tel ég það vera mjög jákvætt og ég hef svo sem stutt það áður og flutt frumvarp með hv. þm. Siv Friðleifsdóttur einmitt um það atriði. Það sem vantar inn í þessa tillögu er að þingmönnum fækki úr 63 niður í 51. Ég tel það vera eðlilega afleiðingu af þessari tillögu. Þá mundi ekkert breytast, ekki sætaskipun hér í þingsalnum, nefndaskipunin ekki því að ráðherrar taka ekki þátt í nefndum. Utanríkisstarf þingsins mundi ekki breytast og kostnaður mundi ekki aukast. Það eina sem mundi breytast er að varaþingmenn stjórnarflokkanna kæmu inn á þing en hlutföllin mundu haldast óbreytt í atkvæðagreiðslu. En ráðherra mundi ekki greiða atkvæði.

Svo er hægt að ræða, og það mætti kannski gera í þessari nefnd sem hefur verið sett á laggirnar, stjórnskipunarnefnd, hvort ráðherrar eigi að hverfa alveg af þingi eða tímabundið. Ég hallast frekar að því að menn fari tímabundið þann tíma sem þeir sitja sem ráðherrar en þá hafi þeir ekki réttindi þingmanna, ekki heldur til að sitja í þingflokkum, þannig að þeir hverfi þannig séð alveg af þingi. Ef þeir hins vegar þurfa að segja af sér eða stjórnin fellur eða eitthvað slíkt þá komi þeir aftur sjálfkrafa inn sem þingmenn. Ég tel það vera eðlilegt.

Varðandi síðasta atriðið í frumvarpinu þá er ég er sammála hv. þingmanni um það að þjóðin eigi að greiða atkvæði um þetta en það er ekki sama hvernig. Til dæmis ef 20% greiða atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu og 11% samþykkja þá finnst mér það ekki fullnægjandi og ekki sannfærandi. Það finnst mér ekki vera sannfærandi stuðningur við stjórnarskrárbreytingu. Ég held að stjórnarskrárbreyting þurfi miklu meiri þátttöku til samþykktar. Ég mundi gera kröfu til þess að alla vega helmingur þjóðarinnar, þ.e. atkvæðisbærra manna, tæki þátt í atkvæðagreiðslunni og jafnvel að setja það til viðbótar að tveir þriðju þeirra sem greiða atkvæði greiði því atkvæði. Ég tel að breytingar á stjórnarskránni séu svo mikilvægar að það þurfi að vera aukinn meiri hluti fyrir því og alla vega að einhver lítill minni hluti þjóðarinnar geti ekki samþykkt breytingu á stjórnarskrá.

Að öðru leyti tek ég undir þessar breytingar. Ég tel mikilvægt að staða Alþingis sé styrkt. Ég hef margoft nefnt til dæmis það að flestöll lög sem Alþingi samþykkir, þ.e. að frumvörp að þeim eru samin annars staðar en á Alþingi. Það er regla og það er mjög miður því að sá sem setur upphaflega saman lagatexta ræður hvernig endanlegur rammi er. Allir aðrir sem koma að því, hvort sem það er ríkisstjórn, hvort sem það eru þingflokkarnir, hvort sem það er Alþingi eða nefnd Alþingis, þurfa að koma með breytingartillögur við þessar tillögur og þeir þurfa að rökstyðja þær. Sá sem semur textann í upphafi þarf ekki að rökstyðja neitt. Endanleg lagasetning verður eins og hann vill hafa það nema eitthvað annað sé rökstutt. Ef nefndir Alþingis mundu almennt séð semja frumvörp, sem ég tel mjög æskilegt og jákvætt og ætti í raun að stefna að — og það þyrfti engu að breyta til þess, frú forseti. Það þyrfti engu að breyta hvorki í lögum né stjórnarskrá. Þetta er bara vinnuregla — ef vinnureglan væri sú að ráðuneytin ásamt félagasamtökum, einstaklingum og samtökum og svo framvegis gætu komið með tillögur til viðkomandi nefnda um að nauðsynlegt sé að breyta þessu og hinu. Síðan tæki nefndin ákvörðun um að semja um það frumvarp og nefndin mundi sjálf semja það frumvarp. Þá þurfum við að sjálfsögðu að styrkja nefndasviðið allverulega með því sama fólki væntanlega sem er að vinna uppi í ráðuneytunum. Það mætti gera það, flytja það til nefndasviðs. Það yrði sami kostnaðurinn fyrir ríkið. Þetta er bara vinnulag. Það þyrfti ekki að breyta í rauninni neinu nema skipulagi vinnunnar. Þá gætu líka ráðuneytin verið uppteknari af því að sinna framkvæmdinni í staðinn fyrir að semja lög þannig að ég held að þetta yrði mjög jákvætt.

Það er sitthvað fleira. Til dæmis finnst mér að fjárlög þar sem Alþingi er að grípa inn á svið framkvæmdarvaldsins ættu að vera miklu meira á því formi að það séu settir rammar, til dæmis almennt séð söfn, þetta miklir fjármunir í söfn, og það sé jafnframt sagt að menn vilji að það sé gætt jafnræðis á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis og svo framvegis. En það er á ábyrgð ráðherrans hvernig hann framkvæmir það svo, í staðinn fyrir að Alþingi sé að segja að það eigi að setja svo og svo mikla peninga í þetta safnið eða hitt safnið. Það finnst mér vera mjög óeðlilegt og þar er Alþingi að grípa inn í framkvæmdir og þá getur enginn borið ábyrgð á þeirri framkvæmd því að Alþingi getur ekki kvartað undan sjálfu sér. En Alþingi á að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu.

Ég er því mjög hlynntur þessu og mér finnst þetta frumvarp til stjórnarskipunarlaga eiga mjög vel við í núverandi stöðu og í ljósi þeirra mótmæla og þeirrar gerjunar sem er í þjóðfélaginu sem ég held að þingmenn ættu virkilega að hlusta á og nýta sér það sem út úr því kemur vegna þess að það er að mínu mati alltaf jákvætt þegar fólk sýnir pólitískan áhuga.