136. löggjafarþing — 70. fundur,  22. jan. 2009.

staða efnahagsmála og horfur á vinnumarkaði, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[11:12]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir það greinargóða yfirlit sem hann flutti áðan um þær aðgerðir sem hæstv. ríkisstjórn hefur gripið til á þeim ríflega hundrað dögum sem liðnir eru frá því að bankakreppan dundi yfir og gjaldeyriskreppan að auki. Sömuleiðis þakka ég hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, formanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, fyrir ákaflega málefnalega ræðu sem hann flutti áðan. Hv. þingmaður tjáði að sönnu tilfinningar sínar með því sterklega og meitlaða orðfari sem honum er tamt en hann gerði það með þeim hætti að hann lagði það eigi að síður fram hér fyrir okkur að ekki væri hægt að halda því fram að ríkisstjórnin hefði ekki gert ýmislegt gott.

Rétt er að það hefur gengið þung og erfið mótmælabylgja yfir íslensku þjóðina. Fólk er kvíðið, það lifir í óvissu og það er reitt. Ég vil hins vegar segja að ég tel að fólk hafi í mótmælum sínum sýnt mikla stillingu. Miðað við þá reiði sem ríkir, miðað við óvissuna og miðað við þann mikla fjölda sem hefur tekið þátt í mótmælum, t.d. í kringum Alþingishúsið á síðustu dögum, þá verð ég að segja að það er ekki mildi sem olli því að ekki kom til neins konar meiðinga meiri en það sem þó gerðist, heldur var það fyrst og fremst hófsemd og stilling þeirra sem leitt hafa þessi mótmæli fyrir utan húsið. Þetta vildi ég að fram kæmi.

Hv. þingmaður talaði um að nauðsynlegt væri að meiri upplýsingar kæmu fram og það er alveg hárrétt. Í þeim 40 atriðum sem hæstv. forsætisráðherra taldi upp áðan eru ítarlegar upplýsingar um hvað ríkisstjórnin hefur verið að gera til að halda samfélaginu gangandi til að lina þjáningar fólks sem á við mikla erfiðleika að stríða og þó verð ég að segja, eins og hv. þingmaður, að þeir erfiðleikar eru ekki að fullu fram komnir. Við þurfum auðvitað að leggja fram allar þær upplýsingar sem hægt er en við þurfum líka að geta unnið úr þeim. Eitt af því sem t.d. veldur kvíða hjá fólki eru þær skuldaklyfjar sem haldið er fram að komandi kynslóðir þurfi að axla á næstu árum og áratugum. Við þurfum á fá á hreint hverjar þessar upphæðir eru. Í þessari umræðu hafa nú þegar, þótt aðeins tveir hv. alþingismenn og ráðherrar hafi talað, komið nú fram mjög mismunandi upplýsingar og staðhæfingar um grundvallaratriði.

Hæstv. forsætisráðherra gerði þetta í skýru máli að umræðuefni og sagði að nettóskuldir þjóðarinnar væru 70% af landsframleiðslu. Það er ekki baggi sem mun valda því að kynslóðir framtíðarinnar kikni í hnjánum. Það er ekki baggi sem við getum, miðað við stöðu þeirra atvinnuvega sem við búum yfir, ekki ráðið við að greiða. Hv. þingmaður og formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sér þetta allt öðrum augum. Hann segir: Skuldirnar eru hátt á þriðja þúsund milljarð króna. Milli þessara tveggja stærða er auðvitað himinn og haf og við í þessum sölum, þingmenn í umræðum eða þingnefndir eða fjölmiðlar þurfum að geta unnið úr þessu og skýrt hvar sannleikurinn í þessu máli liggur vegna þess að hér er um að ræða lykiltölur.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði að héðan þyrftu að koma skilaboð um hófsemd og stillingu. Ég er sammála því en héðan þurfa líka að koma önnur skilaboð. Það eru skilaboð um von og bjartsýni. Auðvitað er staðan þannig að íslenska þjóðin er í bölvaðri klípu. Við sem löggjafarsamkunda og við sem ríkisstjórn sem situr á þessum bekkjum erum í bölvaðri klípu. Við sem löggjafarsamkunda m.a. vegna þess að við, hver og einn einasti sem á sínum tíma tók þátt í atkvæðagreiðslu um þá löggjöf sem reyndist gölluð greiddum atkvæði með þeirri löggjöf. Sú löggjöf sem leiddi til þess að við berum nú hugsanlega miklar byrðar út af svokölluðum Icesave-reikningum var á síðustu árum afgreidd í þessum sölum með atkvæðum allra þingmanna. (Gripið fram í: Nei.) Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir sagði í ágætri lokaræðu sinni sem formaður Framsóknarflokksins að flokkur hennar hefði átt þátt í mörgum góðum verkum en hann hefði líka átt þátt í þessari löggjöf sem lögð var fram. Þingmenn geta farið í þingskjöl og skoðað það. Þingheimur allur greiddi atkvæði með því, það er bara staðreynd. Við þurfum að horfast í augu við það. Þess vegna er það skylda okkar að geta sýnt þjóðinni fram á að það sé hægt fyrir Alþingi Íslendinga og ríkisstjórnina að komast fram úr þessum vanda. Það þarf að sýna fólki að það er tilefni, þrátt fyrir þessa erfiðu stöðu og þann dökkva sem fram undan er, að leyfa sér samt þann munað að hafa ákveðna von og bjartsýni um að við getum unnið okkur út úr vandanum.

Snertiflöturinn í ræðu minni og þeirrar sem flutt var hér áðan er einmitt sé að Íslendingar geta unnið sig út úr þessum vandræðum. Staðreyndin er sú að þrátt fyrir að við séum stödd í tvöfaldri kreppu, gjaldeyriskreppu og bankakreppu, og þrátt fyrir að margar aðrar þjóðir hafi lent í því sama þá er engin þjóð sem hefur svipaða möguleika og við til að vinna okkur út úr þessu. Ástæðan er sú að engin önnur þjóð sem hefur hrapað í þessar ógöngur býr að jafnsterkum og öflugum útflutningsatvinnuvegum og Íslendingar. Við búum í dag að mjög öflugum sjávarútvegi þar sem flestar fréttir úr hafinu sjálfu eru góðar. Við búum sömuleiðis að öflugum orkulindum sem eru eftirsóttar. Einungis í þessari viku hafa þrjú alþjóðleg fyrirtæki, sem ekki hafa komið hingað áður, viljað ræða við íslensku ríkisstjórnina um möguleika á því að leggja fram fjármagn til að virkja þessar orkulindir af því að við höfum ekki það fjármagn sjálf. Sömuleiðis höfum við aldrei haft betri sóknarfæri til að búa til gjaldeyri og skapa störf á grundvelli náttúru og menningar en núna í gegnum ferðaþjónustuna. Við eigum þar að auki tvöfaldan sóknarfleyg inn í framtíðina þar sem annars vegar eru hátt á annað hundrað sprotafyrirtæki sem skera sig frá öðrum fyrirtækjum í landinu núna að því leyti til að flest þeirra eru að bæta við störfum, flest þeirra eru að ná aukinni hlutdeild á alþjóðlegum mörkuðum og flest þeirra eru að auka veltu sína í erlendum gjaldeyri. Hinn sóknarfleygurinn markar síðan tímamót á þessum degi og það eru möguleikar Íslendinga á því að vinna olíu og gas fyrir neðan hafsbotninn á norðaustursvæðinu. Eftir klukkutíma verður formlega opnað fyrsta útboð vegna sérleyfa á þessari auðlind. Þetta eru líka möguleikar sem skipta máli þegar við horfum fram í framtíðina.

Við sjáum fyrir okkur mikinn samdrátt í greinum sem hafa þanist út á góðærisskeiði síðustu ára og það eru þær greinar, mannaflsfrekar greinar í byggingariðnaði og öðru skyldum sem dragast hraðast saman. Byggingarverkafólk, iðnaðarmenn, arkitektar, skipulagsfræðingar, verkfræðingar finna fyrst fyrir þessu. Þess vegna hefur ríkisstjórnin lagt á það þunga áherslu, ágæti þingheimur, að skapa störf fyrir þetta fólk. Þegar ég á sínum tíma staðfesti fjárfestingarsamning um Helguvík var það ekki beinlínis gert til að vinna vinsældakosningu innan Samfylkingarinnar, míns flokks, sem hefur ekki alltaf klappað fyrir slíku. En það skipti máli þegar ég tók þá erfiðu ákvörðun að hún leiðir til þess að 2.500 störf verða til við byggingu stóriðjunnar í Helguvík á þeim tíma sem atvinnuleysið er hæst og efnahagslægðin er dýpst. Þegar búið er að byggja það álver fá þar 650 manns vel launuð störf og 1.000–1.300 aðrir fá þar með einhverjum hætti afleidd störf. Þetta skiptir máli.

Það skiptir máli að þessi ríkisstjórn, þrátt fyrir erfiðan niðurskurð í ríkisfjármálum, erfiðustu stöðu sem þjóðarbúið hefur nokkru sinni lent í, hefur eigi að síður samþykkt fjárlög þar sem gert er ráð fyrir að til framkvæmda fari meira fé en nokkru sinni fyrr, 40 milljörðum íslenskra króna verður varið til framkvæmda. Þannig tekur ríkið á til að skapa störf fyrir fólk sem er að tapa störfum sínum. Það er með nákvæmlega sama viðhorfi, einbeittur vilji okkar til að draga úr atvinnuleysinu, sem menn hafa líka fallist á það að þegar Búðarháls verður virkjaður mun orkan sem þaðan fæst fara til þess að auka framleiðslu hjá Alcan. Af hverju? Vegna þess að það þýðir að 300–400 manns fá störf vegna þessa. Það eru nákvæmlega þeir hópar sem núna bera skarðan hlut frá vinnumarkaði, iðnaðarmenn, verkfræðingar og arkitektar, sem þess njóta.

Að sama skapi var það auðsótt af hálfu ríkisstjórnarinnar þegar iðnaðarráðherra óskaði eftir því að gerður væri sérstakur samningur við Atvinnuleysistryggingasjóð sem heimilaði sprotafyrirtækjum að ráða til sín fólk af atvinnuleysisskrá með þeim hætti að fullar atvinnuleysisbætur fylgdu. Það þýðir samkvæmt upplýsingum og mati sprotafyrirtækjanna sjálfra að 300 ný störf verða til með þeim hætti og fast að 1.000 eða afleidd störf eru tekin með. Þetta skiptir auðvitað máli. Og halda menn að það hafi ekki verið einmitt vegna stöðunnar í þjóðarbúinu sem hæstv. sjávarútvegsráðherra tók þá ákvörðun að kynna aukningu útgáfu aflaheimilda um 30.000 tonn? Við getum svo slegist og bitist eins og hundar um það hvort hefði átt að selja þær eins og ég hefði gjarnan viljað sjá. Það sem skiptir máli er að 30.000 þorsktonn búa til gjaldeyri en þau búa líka til störf handa höndum sem ekki hafa atvinnu í dag. Auðvitað réði það miklu. Hafrannsóknastofnunin mælti gegn þessu. Ráðherrann tók þessa ákvörðun vegna þess að vísbendingar voru um það úr síðasta ralli Hafró að það væri að verða viðsnúningur í þorskstofninum, vegna hvers? Vegna þess að núverandi ríkisstjórn hafði kjark til þess á meðan góðærið ríkti að draga úr veiðinni og byggja hana upp. Nú eru menn að njóta þess. Þetta skiptir máli.

Allar aðrar fréttir utan ein úr hafinu við Ísland eru jákvæðar. Það er ekki bara þorskstofninn, hingað eru farnar að koma nýjar tegundir eins og makríll sem menn eru farnir að veiða hér hátt á annað hundrað þúsund tonn. Og sumir sem hafa verið þaulsætnastir í þingsölum á síðustu árum muna eftir þrálátum tillöguflutningi þáverandi þingmanns Össurar Skarphéðinssonar um að fara í tilraunaveiðar úr því sem ég kallaði miðsjávarteppið í hafinu. Loksins eru menn að fara í það og við sjáum að Huginn í Vestmannaeyjum kemur til hafnar með 600 tonn af nýrri tegund, gulldeplu sem gríðarlegt magn er af í hafinu. Svona mætti halda áfram að telja.

Ég vil að lokum segja það, herra forseti: Mér er falið það verk að reyna af fremsta megni að nýta með skynsamlegum hætti fyrir hönd þjóðarinnar þær orkulindir sem við búum við. Það hef ég reynt að gera. Að sama skapi hef ég líka reynt að leggja sprota inn í framtíðina vegna þess að við þurfum að koma út úr þessari kreppu með atvinnulíf sem er sterkara og betra en það var áður og með dreifðari áhættu. Ég er alveg sannfærður um að fáir þingmenn gera sér grein fyrir þeirri auðlegð sem felst í þeim rúmlega 100 sprotafyrirtækjum sem við erum að reyna að byggja upp í dag. Hvað hefur ríkisstjórnin gert í þeim efnum? Í fyrsta lagi höfum við, þrátt fyrir niðurskurð, sett meiri pening til ýmissa styrktarsjóða en nokkru sinni fyrr. Búið er að leggja fram þrenns konar nýja styrki á allra síðustu dögum beinlínis vegna þeirrar stöðu sem hér er uppi. Í fyrsta lagi frumherjastyrki sem geta verið allt að 10 millj. kr. til þess að styðja frumkvöðla sem fá góðar hugmyndir. Í öðru lagi sérstaka brúarstyrki til þess að aðstoða þá sem eru komnir með fullþroska afurð til að koma henni á markað. Í þriðja lagi öndvegisstyrki til þess að búa til öndvegissetur í vistvænni skipulagshönnun fyrir arkitekta í sjálfbærri ferðaþjónustu til að reyna að fá fleiri útlendinga til landsins. Og á sviði orkulíftækni styrkur til þess að búa til innlent eldsneyti til að við þurfum ekki að eyða dýrmætum gjaldeyri í að kaupa það annars staðar frá. En það sem skiptir kannski hvað mestu máli er að í þessari viku tekur loksins til starfa gamall draumur hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur og mín, Frumtak, sjóður sem hefur 4,3 milljarða til ráðstöfunar og þó hugsanlega einum meiri þegar þetta ár ef úti ef samningar okkar við Evrópusambandið ná fram að ganga. Það þýðir bókstaflega að sá sjóður mun fjárfesta fast að 100 millj. kr. í átta til tíu íslenskum sprotafyrirtækjum á hverju einasta ári. Halda menn að þetta skipti ekki máli?

Þetta skiptir máli og það er m.a. þetta sem gerir það að verkum að þegar kreppunni slotar eftir eitt og hálft til tvö ár þá siglum við út úr henni með nýja flóru fyrirtækja sem eru miklu sterkari og allt öðruvísi, hátæknifyrirtæki sem eiga framtíðina fyrir sér. Það er þetta sem á að geta gefið fólki von og bjartsýni. Við eigum ekki að láta það henda okkur að víl og bölmóður í þessum sal verði að sérstöku efnahagsvandamáli (Forseti hringir.) þjóðarinnar.