136. löggjafarþing — 70. fundur,  22. jan. 2009.

staða efnahagsmála og horfur á vinnumarkaði, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:03]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Á sameiginlegum fundi efnahags- og skattanefndar og fjárlaganefndar í morgun var kynnt ný þjóðhagsspá og það sem upp úr stóð var hvað það er gríðarleg óvissa. Það segir að íslenskt efnahagslíf sé enn á leið inn í djúpa efnahagslægð sem spáð er að nái botni á fyrri hluta árs 2010. Hins vegar eru allar forsendur í mikilli óvissu. Það er ekki enn hægt að gera grein fyrir skuldum ríkisins. Það er enn óvissa um Icesave-reikningana, það er enn óvíst hvenær vextir verða lækkaðir á sama tíma og aðrar þjóðir keppast við að lækka vexti, allt niður í 0,25% eins og kemur fram í þessari skýrslu en stýrivextir hér eru enn 18%. Það er ekki nema von að fólk furði sig, t.d. þeir sem fylgdust með umræðum á þinginu í nóvember um efnahagsmál, þegar síðast var rætt um efnahagsmál, þá stóð upp fjöldi þingmanna og allir lýstu furðu á vaxtastefnu ríkisins, Seðlabankans. Allir efuðust um þessa aðferðafræði og enn standa hér menn og konur og lýsa furðu og efast um aðferðafræðina og ég leyfi mér að taka undir það. Ég leyfi mér að taka undir það því það er enn sannara í dag en það var í nóvember að stýrivextirnir eru að sliga fólk og fyrirtæki og aðferðafræðin skilar ekki árangri.

Það kom líka fram á fundi efnahags- og skattanefndar í fyrradag að það er allsendis óvíst hver lánsfjárþörf atvinnulífsins er til framtíðar því sem stendur eru fyrirtækin ekki að taka lán. Það er enn þá óljóst hvort þeir 385 milljarðar sem á að leggja inn í bankana duga sem eiginfjárframlag. Það er ekki enn þá búið að stofna þessa nýju banka, formlega, þeir eru í raun ekkert annað en viljayfirlýsing um banka og frá því verður ekki gengið fyrr en í fyrsta lagi um miðjan febrúar. Skilin milli gömlu og nýju bankanna eru enn óljós, það er ekki enn þá búið að afhenda þetta skuldabréf á milli bankanna. Vinna skilanefndarinnar fer að miklu leyti fram í myrkri og upplýsingar seytla út til almennings, nú síðast um hin stórfurðulegu viðskipti sjeiksins við Kaupþing.

Í þjóðhagsspánni er líka spáð 8,6% atvinnuleysi en þar eru forsendur líka óvissar og það er líklega mjög hófstillt spá því samkvæmt upplýsingum Creditinfo eru 3.000–3.500 fyrirtæki sem standa mjög illa og þó að því hafi verið lýst yfir að ríkið muni grípa til mannaflsfrekra aðgerða til að bregðast við atvinnuástandinu þá er samt skorið niður hjá hinu opinbera, það er verið að fækka störfum og það er það sem fólk sér. Það heyrir ekki einhver orð, það sér hins vegar hvað er að gerast í raun, að það er verið að fækka störfum og skera niður.

Hér hafa verið sett skilyrði af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um tiltekinn halla og það setur auðvitað hinu opinbera skorður. Það hafa verið sett skilyrði um að skuldirnar verði greiddar hratt og örugglega niður og að hallinn verði minnkaður hratt og örugglega, enda hugsar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fyrst og fremst um hagsmuni fjármagnsins. Síðast en ekki síst erum við stödd mitt í stærsta reikningnum, stærsta einstaka reikningi sem fellur á íslenskan almenning sem eru Icesave-skuldbindingarnar. Hér er hugsanlega um að ræða 150 milljarða en við vitum að heildartalan eru 640 milljarðar og við vitum ekki hvað kemur á móti. 640 milljarða reikningur sem eigi að síður er búið að færa gríðarlega sannfærandi rök fyrir að okkur ber ekki lagaleg skylda til að greiða.

Björg Thorarensen hefur lýst Icesave-samningunum sem nauðungarsamningum sem þar af leiðandi séu ógildanlegir samkvæmt þjóðarétti. Lárus Blöndal og Stefán Már Stefánsson segja að íslenska ríkið hafi það val að fara í mál fyrir dómstóli Evrópusambandsins og láta á þetta reyna því það gerði enginn ráð fyrir því að umrædd Evrópusambandstilskipun ætti við um heilt bankahrun í landi þar sem gengið yrði lengra en að vísa til innstæðutryggingasjóðs sem ætti að greiða það sem þar væri til. Þetta er stóri einstaki reikningurinn sem fellur á íslenskan almenning. Hér er því ekki bara efnahagskreppa einangruð í tíma og rúmi, það er samfélagskreppa. Það er engin sátt um þá aðferðafræði sem hefur verið valin og þess vegna leggjum við áherslu á kosningar. Þess vegna leggjum við til að forsætisráðherra leiti eftir kosningabuxunum sem hann fann ekki í gær því það er það eina sem getur skapað einhverja sátt og hún er nauðsynleg til að komast út úr kreppunni. Kreppan verður ekki leyst undir lögregluverði.