136. löggjafarþing — 70. fundur,  22. jan. 2009.

staða efnahagsmála og horfur á vinnumarkaði, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:08]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Íslenska þjóðin gengur nú í gegnum gríðarleg áföll í efnahags- og fjármálum, vandamál sem kom í kjölfar mikillar þenslu einkum á höfuðborgarsvæðinu á sama tíma og við gengum í gegnum það víða úti á landi að hagvöxtur var neikvæður á stórum svæðum og vinnuaflið sogaðist inn til höfuðborgarinnar þar sem menn kepptust hver við annan um að byggja upp íbúðir og kepptust um að fjölga íbúum. Það gekk jafnvel svo langt að Reykjavíkurborg setti sér það markmið að fjölga íbúum um 15% sem jafngilti því að flytja alla af Norðausturlandinu til Reykjavíkur.

Einkavinavæddir bankar nutu frá stofnun nánast ótakmarkaðs aðgangs að lánsfé þar sem hver milljón í hlutafé var tífölduð með lánsfé. Um leið og ráðist var í stórtækar framkvæmdir með tilheyrandi þenslu ákvað þáverandi ríkisstjórn að lækka skatta, Seðlabankinn minnkaði bindiskyldu og bankarnir komu inn á íbúðalánamarkaðinn með 90% lán og fjármögnuðu íbúðalán sín, veitt til áratuga með skammtímalánalínu. Hækkað fasteignaverð sem fylgdi auknu aðgengi að lánsfé varð veðandlag fyrir alls kyns neyslulánum auk hækkunar íbúðalána og þannig var dansinn stiginn í einhverjum alsælutöfradansi frjálshyggjunnar. Svo virtist sem peningarnir kæmu af himnum ofan eða yrðu til af sjálfum sér. Fyrirgreiðslu- og valdaflokkar samfélagsins kyntu þessa kjötkatla og komu sér vel fyrir við bálið. Þess vegna fór ég í kosningar fyrir tveimur árum, til að koma þessum flokkum frá en framhaldið þekkjum við. (Gripið fram í: Já.)

Þegar þrengdi að í heiminum komu varúðarráðstafanir fjárfesta. Fjárfestar horfðu til hrávara, hættu að veðja á hlutabréf og það kom í ljós hversu berskjölduð örmyntin okkar var, mynt sem vaxandi alþjóðlegt fjármála- og atvinnulíf hafði yfirgefið. Erlendir lánveitendur kröfðust sífellt hærri skuldatryggingaálags og aðgangur að lánsfé dróst hratt saman. Alþjóðleg matsfyrirtæki ráðlögðu bönkunum að auka innlán sem tókst vonum framar erlendis, eins og Icesave sýnir. Með yfirboði í vaxtagreiðslum og í skjóli ofurvaxta til heimila og fyrirtækja Íslands tókst að skuldsetja þjóðina gríðarlega. Við stóðum uppi með risavaxið bankakerfi, þ.e. tí- eða tólffalda landsframleiðslu Íslands, skrímsli sem engin leið var að verja. Þannig leit landið út þegar ég kom á þing og þótt óstöðugleiki, of há verðbólga og þensla hafði hringt ýmsum bjöllum, þá varð oftrú mín á burði efnahags- og atvinnulífsins og óskhyggja alls samfélagsins, þar með talið okkar þingmanna og ríkisstjórnar, á að þetta bjargaðist, hindrun þess að gripið yrði til verulega harðra aðgerða. Getuleysi Seðlabankans og innlendra og erlendra fjármálastofnana varð til þess að ofurhiti útrásarinnar og risabönkunum varð ekki bjargað.

Ég nefni þetta hér vegna þess að þegar árið 2002 hafði Samfylkingin bent á að við þyrftum að koma okkur í öruggara umhverfi með aðild að Evrópusambandinu og að eignast nýjan gjaldmiðil. Ekki tókst að koma því máli á dagskrá og það komst raunar ekki á dagskrá fyrr en Sjálfstæðisflokkurinn ákvað að taka það á dagskrá og þá fór hinn lýðræðislegi, málefnalegi fréttamiðill, Morgunblaðið, að birta greinaflokk í fjölmörgum útgáfum sínum.

Ég held að við verðum enn einu sinni að horfa til baka vegna þess að hér koma fram flokkar sem virðast ekki ætla að bera neina ábyrgð á því sem gerðist áður og það koma aðrir flokkar sem ætla ekki að sjá það bankahrun sem hefur átt sér stað, afneita staðreyndunum, mála skrattann á vegginn, ala á óvissu og hræra í pottinum einfaldlega til að reyna að skapa aukinn ótta í samfélaginu. Við verðum að horfast í augu við þennan vanda eins og hann er. Það hefur ríkisstjórnin gert með margvíslegum hætti þó að margt megi gagnrýna og það hefur komið ágætlega fram í ræðum hæstv. forsætisráðherra og hæstv. iðnaðarráðherra. Það er ástæðulaust að endurtaka þá umræðu en það er þó ástæða til að vekja athygli á nokkrum þáttum eins og hallanum á ríkissjóði og lágmarki á niðurskurði sem er einfaldlega gerður til að reyna að halda uppi atvinnustiginu, ótal vinnumarkaðsaðgerðum og nú síðast samráði á vinnumarkaði til að leita að úrræðum til að auka atvinnustigið. Það er ljóst að það gengur hægt að stilla bönkunum upp að nýju. Það liggur á því vegna þess að atvinnulífið þarf á fyrirgreiðslu bankanna að halda. Þorskkvóti hefur verið aukinn, það er verið að taka ákvarðanir í sambandi við nýtingu á orku og þannig mætti lengi telja.

Tíminn leyfir ekki að farið sé yfir öll þessi atriði en það er ljóst að það þurfa allir stjórnmálaflokkar að víkja til hliðar stundarhagsmunum og leggjast á eitt um að efla kjark og bjartsýni. Við höfum mörg tækifæri til að koma okkur út úr þessum vanda og það er verkefni okkar núna. Við eigum að efna til kosninga á þessu ári sem fyrst en samtímis eigum við að vinna hratt og örugglega að þeim aðgerðum sem nauðsynlegar eru til að tryggja að hér verði ekki atvinnuleysi umfram það sem óhjákvæmilegt er.