136. löggjafarþing — 70. fundur,  22. jan. 2009.

staða efnahagsmála og horfur á vinnumarkaði, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:14]
Horfa

Helga Sigrún Harðardóttir (F):

Herra forseti. Í dag er til umræðu skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og horfur á vinnumarkaði. Hæstv. forsætisráðherra fór skilmerkilega yfir aðgerðir ríkisstjórnarinnar við upphaf þingfundar og ber að þakka fyrir það. Þær aðgerðir eru ágætar svo langt sem þær ná. Þær ná bara ekki nándar nærri nógu langt og alls óljóst er hversu mikilli fjölgun starfa hérlendis ríkisstjórnin ætlar að beita sér fyrir á komandi mánuðum.

Hæstv. iðnaðarráðherra fór í framhaldinu vandlega yfir ýmsar aðgerðir sem varða nýsköpun og sprotafyrirtæki. Ég fagna því sérstaklega en tel þó að virðulegur ráðherra geri sér fulla grein fyrir því eins og við hin að þær aðgerðir munu fyrst og fremst gagnast þegar til lengri tíma er litið en ekki nema að örlitlu leyti þeim tugþúsundum vinnufúsra handa sem nú hafa verið sendar heim af vinnumarkaði. Nú ganga nefnilega á þrettánda þúsund manns atvinnulaus um götur um land allt. Atvinnuleysi jókst um 45% á milli mánaða í nóvember og desember. Spár um atvinnuleysi sem er í pípunum og er ókomið fram eru uggvænlegar. Spáð er allt að 10% atvinnuleysi í lok þessa árs en ég leyfi mér að geta þess sérstaklega að á Suðurnesjum hafa menn náð þeirri tölu nú þegar. Staðan er því uggvænleg og ljóst virðist vera að ástandið bitnar mjög harkalega á Suðurnesjamönnum.

Herra forseti. Vinnusemi er hér landlæg og sjálfstraust fólks er nátengt atvinnu þess. Gera má ráð fyrir að það einkenni íslensku þjóðarsálarinnar geri fólki almennt erfiðara fyrir að taka atvinnuleysi með jafnaðargeði og íslensk stjórnvöld draga því beinlínis kjarkinn úr fólki á meðan ekkert er að gert. Nýlegar rannsóknir hérlendis gefa til kynna mikla fylgni á milli atvinnuleysis og nýgengis örorku. Með öðrum orðum, þegar atvinnuleysi eykst eru mjög miklar líkur á að öryrkjum fjölgi, fólki sem kemst illa eða ekki út á vinnumarkaðinn aftur. Þar leiða menn líkur að því að veikustu einstaklingarnir tapi heilsu sinni í kjölfar atvinnumissis og leið þeirra liggi beina leið inn í örorkumat. Það er þekkt staðreynd að atvinnumissir hefur mikil áhrif á heilsu manna og eru hjartasjúkdómar og þunglyndi þar ofarlega á blaði. Langvarandi atvinnuleysi rýrir fjárhag fólks og í kjölfarið félagslega stöðu þess. Dánartíðni eykst einnig.

Ekki þarf að nefna það að atvinnuleysi eykur efnahagslegan ójöfnuð og þaðan verður ekki aftur snúið nema fyrir þá allra hörðustu. Ef ekkert verður að gert og ríkisstjórn landsins leggur ekki meira á sig en orðið er til að skapa ný störf á komandi mánuðum er ljóst að fólk mun í auknum mæli finna fyrir depurð, kvíða og þunglyndi og það leggur árar í bát, sumt fyrir lífstíð. Líkur eru á að sterkustu einstaklingarnir sem hafa samkeppnishæfa menntun og reynslu muni flýja af landi brott til að forðast ástandið, og hvað ætlar ríkisstjórnin að gera í því? Nú þegar bíður á annan tug þúsunda manna eftir því að fá að vinna.

Íslendingar telja atvinnuleysi jafnframt alvarlegra vandamál en öll önnur vandamál sem þjóð getur glímt við. Það hafa ítrekaðar rannsóknir Gallups leitt í ljós. Atvinnulaust fólk leitar meira inn í heilbrigðiskerfið en þeir sem vinnandi eru vegna þeirra alvarlegu afleiðinga sem atvinnuleysi hefur á fólk. Rannsóknir sýna jafnframt að heilbrigðisvandi atvinnulausra kemur ekki til kasta heilbrigðisþjónustunnar fyrr en seint og síðar meir þegar erfiðara er að ráða við hann og því er mikilvægt á tímum kreppu og atvinnuleysis að hafa sem minnstar aðgangshindranir að grunnþjónustunni. Þrátt fyrir þetta eru komugjöld sett á á spítölum sem bitna vissulega harðast á þeim sem virkilega þurfa á þeirri þjónustu að halda og það þó að menn viti að slík komugjöld skili litlu sem engu í ríkiskassann. Það læðist að manni sá grunur að komugjöld séu sett á til að fæla fólk frá því að leita sér aðstoðar, að þau séu einhvers konar aðgangsstýring þar sem stórum hópi er haldið frá heilbrigðisþjónustunni. Það dregur vissulega úr kostnaði. Reyndar eru þjónustugjöld hér lág og flestum ekki ofviða, ekki enn þá alla vega en það kann að breytast þegar fólk hefur minna á milli handanna. Nú þegar er fólk farið að fresta því að leysa út lyf og fresta tímum hjá sjúkraþjálfurum þar sem það telur sig ekki hafa efni á þjónustunni eins og stendur. Slík frestun eykur svo á vanda þeirra sem virkilega þurfa á að halda, t.d. atvinnulausra og þar með aukast líkurnar á því að heilsufar þeirra leiði til varanlegrar örorku. Þetta er framtíðarsýnin sem við höfum, virðulegi forseti, ef þessi ríkisstjórn situr mikið lengur við völd.

Hér er aðgerða þörf ef bjarga á tugum þúsunda vinnandi handa frá þeim ömurlegu örlögum að sitja verklausar langtímum saman með tilheyrandi heilsubresti. Þarna er um að ræða vinnuframlag sem íslenska þjóðin hefur ekki efni á að tapa. Því miður eru ekki líkur á að þær björgunaraðgerðir nái fram að ganga ef stjórnarherrarnir og -frúrnar ætla að sitja áfram undir vernd vopnaðrar lögreglu. Á alþjóðavettvangi erum við álitin eitruð peð vegna þess að hér sitja menn sem fastast í sínum stólum. Margir voru hneykslaðir á því að vera settir á lista með Al Kaída. En ríkisstjórnin sjálf skipar sér á bekk með spilltum og vanþróuðum þjóðum sem ættu að standa íslensku þjóðinni langt að baki.