136. löggjafarþing — 70. fundur,  22. jan. 2009.

staða efnahagsmála og horfur á vinnumarkaði, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:24]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Óhætt er að segja að við Íslendingar stöndum nú frammi fyrir meiri erfiðleikum en við höfum staðið frammi fyrir um mjög langan tíma, og samkvæmt þeim spám sem við höfum verstar er erfitt tímabil fram undan. Það er hins vegar óþarfi að gera þetta verra en það raunverulega er og gera lítið úr því sem hæstv. ríkisstjórn er að vinna að um þessar mundir til að bregðast við erfiðleikunum og tryggja að staðan fari batnandi í framtíðinni.

Lögð var fram áætlun unnin í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem í meginatriðum byggist á þremur þáttum, styrkingu og endurreisn bankanna, styrkingu og endurreisn krónunnar og breytingum í ríkisfjármálum. Þessu fylgir fjöldi annarra aðgerða bæði vegna heimila og fyrirtækja sem hæstv. forsætisráðherra fór mjög skilmerkilega yfir í framsöguerindi sínu.

Fjárlög ársins 2009 voru afgreidd fyrir lok þings í desember. Einmitt vegna þess að yfirstandandi ár er talið verða það erfiðasta á þessu tímabili var ekki gengið hart fram í breytingum á ríkisfjármálunum og þegar vaxtagjöld eru tekin til hliðar lætur nærri að hefðbundin útgjöld ríkisins séu þau sömu á árinu 2009 og þau voru á árinu 2008 þó að auðvitað sé samsetningin aðeins öðruvísi og þurft hafi að hagræða vegna þess. Hins vegar er um að ræða næstmesta framkvæmdaár á vegum ríkisins á síðari tímum og því er ekki hægt að segja að ríkisstjórnin og ríkissjóður reyni ekki eins og mögulegt er við erfiðar aðstæður að styrkja við atvinnulífið.

Staða ríkissjóðs hefur að sjálfsögðu versnað til mikilla muna. Áður en áfallið reið yfir var ríkissjóður skuldlaus nettó, hann skuldaði milli 600 og 700 milljarða en átti peningalegar eignir á móti því öllu. Staðan hefur því breyst verulega og stærðargráðan á fyrirsjáanlegum skuldum ríkissjóðs er núna 2.000 milljarðar brúttó. Þar tel ég ekki með lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem Seðlabankinn tekur, eða lán frá erlendum ríkjum sem ætluðu að styðja við það vegna þess að við gerum ráð fyrir því að sá stuðningur verði í formi lánalína og vegna þess að hér er um varasjóð að ræða þurfum við ekki að draga á og þar af leiðandi ekki að taka eða nýta þessi lán, en talan er nógu stór samt. En ef þeir hlutir ganga eftir sem ætlaðir eru, að við getum komið okkur aftur út úr bankarekstrinum og við fáum til baka stóran hluta af því sem snertir Icesave og getum haldið aftur af ríkisútgjöldum næstu árin, þarf nettóskuld ríkissjóðs vegna áfallsins ekki að nema meiru en 500–600 milljörðum. Það er út af fyrir sig alveg nóg en nettóskuldastaða OECD-ríkjanna var að meðaltali um 40% áður en heimskreppan gekk yfir og 600 milljarðar eru nálægt 40% af landsframleiðslu. Staða okkar í því samhengi ætti því ekki að vera slík að við til lengri tíma litið ættum ekki að ráða við hana.

Merki eru um, og það kemur fram í spá fjármálaráðuneytisins, að gengið muni styrkjast á árinu og reiknað er með því að það muni styrkjast um tæp 20% frá því sem það er núna og gengisvísitalan fara niður í nálægt 180 stig. Gert er ráð fyrir að vaxtastig, stýrivextir Seðlabankans muni lækka umtalsvert á árinu og verða 7% við lok ársins, að meðaltali 13% yfir árið, og gert er ráð fyrir að verðbólgan gangi mjög niður á árinu og verði komin niður fyrir 5%, þ.e. tólf mánaða verðbólgan niður fyrir 5% í lok ársins.

Það sem skiptir okkur hins vegar mestu máli er hvernig við bregðumst við til að bæta okkar hag og þá þurfum við að vera enn einbeittari en áður í því að nýta auðlindir okkar og fá fjárfestingar til landsins til að skapa atvinnu. Við þurfum að standa vel að sjávarútveginum og styðja við hann því að hann er auðvitað grunnforsendan eins og oftast áður í því sem við gerum hér og í því að krónan geti styrkst með jákvæðum viðskiptajöfnuði. Við þurfum að styrkja ferðaþjónustuna, við þurfum að styrkja krónuna og tryggja stöðugan gjaldmiðil til framtíðar fyrir atvinnuvegi okkar.