136. löggjafarþing — 70. fundur,  22. jan. 2009.

staða efnahagsmála og horfur á vinnumarkaði, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:50]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þessi umræða fari fram í dag og það er mikið gagn að því að umræða af þessu taginu eigi sér stað einfaldlega vegna þess að það er rétt sem hér hefur verið sagt margoft í dag að það skortir mjög mikið á að menn geri sér grein fyrir því í fyrsta lagi hver staðan er og í öðru lagi hvað gert hefur verið á undanförnum mánuðum og vikum til að bregðast við þeirri gríðarlega alvarlegu stöðu sem okkar þjóðarbú er statt í. Umræða af þessu taginu, sem hefur verið að mínu mati mestan part málefnaleg, er einmitt til þess fallin að varpa bæði ljósi á stöðu málsins og einnig að varpa ljósi á það sem gert hefur verið. Hæstv. forsætisráðherra fór mjög vel yfir þessi mál áðan og ég hygg að mörgum hafi orðið það ljósara en áður hversu gífurlegt verk ríkisstjórnin hefur unnið í því einmitt að bregðast við þeim mikla og alvarlega vanda sem steyptist yfir okkur í byrjun októbermánaðar.

Það er út af fyrir sig alveg rétt að við þurfum að gera mjög margt annað og þess vegna er mjög mikilvægt eins og hér var sagt af hálfu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að horfa til framtíðar. Þess vegna megum við engan tíma missa við þær aðgerðir sem eru nauðsynlegar. En til að þessar aðgerðir nái tilskildum árangri þurfum við líka að efla tiltrú meðal þjóðarinnar og það gerum við meðal annars með því að varpa ljósi bæði á ástandið og það sem verið er að gera til að menn geri sér grein fyrir því að þær aðgerðir sem við höfum verið að grípa til eru einmitt liður í því að byggja upp til framtíðar. Í þeim aðgerðum sem við höfum verið að grípa til gagnvart heimilunum og atvinnulífinu er annars vegar fólgið að bregðast við þeim bráða vanda sem yfir okkur skall og hins vegar líka að reyna að byggja upp og leggja grundvöll að nýju Íslandi.

Virðulegi forseti. Þegar það gerist að heilt fjármálakerfi hrynur hjá einni þjóð eins og gerðist hjá okkur í byrjun októbermánaðar og líka vegna þess að þetta fjármálakerfi var svona stórt í hlutfalli við okkar þjóðarframleiðslu þá hlaut mjög margt að láta undan. Við skulum ekki gleyma því að fjármálakerfi okkar var farið að leggja meira til þjóðarframleiðslunnar heldur en sjálfur sjávarútvegurinn. Þegar þetta hrynur á einni nóttu er ekki við öðru að búast en að það hafi alvarlegar afleiðingar. 10% samdráttur í þjóðarframleiðslu á þessu ári er besta lýsingin á því sem við erum að fást við. Þetta er gífurlegur samdráttur sem gerir það að verkum að ýmislegt af því sem við gátum gert auðveldlega í fyrra og hittiðfyrra getum við ekki gert núna. Það er hins vegar engin ástæða til þess fyrir okkur að leggja árar í bát. Við sjáum líka á þeim tölum sem við höfum handbærar fyrir framan okkur og hér hefur verið vitnað til að þó að samdrátturinn sé óskaplega mikill á þessu ári þá sjáum við til sólar á næsta ári ef áform okkar ganga eftir. Það verður ekki frekari samdráttur í landsframleiðslunni á næsta ári að því er talið er og strax á árinu 2011 förum aftur að sjá hagvöxt. Þetta er hins vegar háð því að við fylgjum eftir þeirri áætlun sem við unnum í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og það er engin ástæða til að gera lítið úr því samstarfi. Það var ekki þvingað samstarf. Það var samstarf sem við sem sjálfstæð þjóð kusum að ganga til vegna þess að við vissum að það var leiðin, öflugasta og kröftugasta leiðin út úr okkar vanda. Það er ámælisvert af þeim sem hafa verið að gagnrýna þetta samkomulag að tala með þeim hætti að það sé hægt að hlaupa frá því eins og ekkert sé og eins og að það muni ekki hafa afleiðingar fyrir okkur sem þjóð. Gera menn sér ekki grein fyrir því hvað er að gerast í löndunum í kringum okkur? Hafa menn ekki fylgst með fréttunum frá Bretlandi og Bandaríkjunum og í Evrópulöndunum almennt þar sem aðgangur að lánsfé er nánast að verða uppþornaður? Hvernig halda menn að okkar þjóð væri stödd ef við værum búnir að klippa á þetta samkomulag við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn en í því fólst meðal annars aðgangur að verulegu fjármagni sem er nauðsynlegur til að skapa tiltrú, til þess að gera þjóðum heimsins það ljóst að við erum í færum til þess að reka efnahagskerfi okkar áfram.

Virðulegi forseti. Að mínu mati er þróun gengisins það sem hefur valdið mestum vonbrigðum upp á síðkastið. Það voru allar forsendur til þess að það gæti styrkst svo um munaði. Þess vegna er það fagnaðarefni sem kemur fram í spá fjármálaráðuneytisins að það muni gerast á þessu ári. En það er að mínu mati illskiljanlegt hvernig það getur gerst á sama tíma og við erum að skila metafgangi mánuð eftir mánuð í vöruskiptum við útlönd. Það er alger viðsnúningur í þessum efnum með jákvæðum formerkjum að það skuli samt sem áður ekki gerast að gengi okkar styrkist. Við settum tiltekin lög, umdeild lög sem Alþingi samþykkti beinlínis í því augnamiði að reyna að styrkja forsendur fyrir gengisstyrkingu krónunnar. Þess vegna verðum við sérstaklega að fara yfir það hvað valdi því að gengið skuli ekki styrkjast eins og eru forsendur til. Það er gífurleg verðmætasköpun í landinu. Sjávarútvegurinn, ferðaþjónustan og álverin eru að skapa okkur miklar útflutningstekjur og allar forsendur eru fyrir því (Forseti hringir.) að gengi krónunnar geti styrkst og þá mun verðbólgan lækka, þá munu skuldir heimilanna lækka, (Forseti hringir.) þá munu skuldir atvinnufyrirtækjanna lækka og við erum að skapa okkur forsendur (Forseti hringir.) fyrir þá uppbyggingu sem við sjáum (Forseti hringir.) og eygjum á næstu mánuðum.