136. löggjafarþing — 70. fundur,  22. jan. 2009.

staða efnahagsmála og horfur á vinnumarkaði, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:01]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hér hefur verið lýst vel þeim góðu verkum sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir á þessum hundrað dögum frá bankahruninu. Þeim hefur verið lýst ágætlega af hæstv. forsætisráðherra og hæstv. iðnaðarráðherra og öðrum talsmönnum stjórnarflokkanna í þessari umræðu.

Það var gripið til aðgerða til að tryggja að unnið væri að brýnustu verkefnunum. Gripið var til nauðsynlegra aðgerða til að milda verstu áhrifin af hruninu á heimili og fyrirtæki í landinu. Grunnur var lagður undir efnahagslega endurreisn með áætlun sem unnin var í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Jafnframt var gripið til metnaðarfullra aðgerða til að bæta aðstöðu fyrir nýsköpun og sprotafyrirtæki. Þannig að grunnur var lagður og stórfelldu tjóni forðað. Það er hrósvert og þakkarvert.

En í þessum styrkleika ríkisstjórnarinnar kristallast líka veikleiki hennar, sem við getum ekki litið fram hjá. Þjóðin skynjar hann og við skynjum hann öll. Við tölum ekki nógu skýrt. Ekki er talað með nógu skýrum hætti við fólk og upplifun þjóðarinnar er sú að hún sé ekki virt viðlits. Það er ekkert skynsamlegt eða eðlilegt við það að flytja ræður um að vissulega sé þetta dýfa en við sjáum fyrir endann á henni í lok næsta árs. Því þjóðin og við öll stöndum frammi fyrir erfiðum ákvörðunum og við eigum ekkert að draga úr því og við eigum að virða fólk þess að segja hreint út við hverju er að búast.

Það er ekki þannig að svartnætti sé fram undan. Skuldirnar sem ríkissjóður þarf að bera eru ekki slíkar að þær eigi að vera ofviða okkur og framtíðarhorfurnar eru vissulega góðar vegna þess að útflutningstekjustaða okkar er góð til lengri tíma litið. En þetta verður samt sem áður erfitt og mun taka í. Þess vegna skiptir svo miklu máli á svona örlagastundu að tala skýrt.

Ríkisstjórn sem horfir til framtíðar verður að vera tilbúin að gera tvennt af mikilli hörku og einurð. Í fyrsta lagi að skera upp í stjórnkerfi landsins og ganga á hólm við það stjórnkerfi embættismannaklíkna og skjallbandalaga, sem hefur skilað okkur óhæfu stjórnkerfi sem ekki hefur reynst fært um að vara við, vera forspátt eða vinna trúverðugan stefnugrunn undir ákvarðanir sem síðan hafa verið teknar.

Við þurfum opnara stjórnkerfi. Við þurfum betra stjórnkerfi. Við þurfum stjórnkerfi sem vinnur þvert á ráðuneyti en ekki stjórnkerfi sem er varið af varðhundum óbreytts ástands þar sem hver ver sinn póst. Við þurfum líka að leggja grunn að efnahagslegri endurreisn og efnahagsleg endurreisn verður ekki nema við komum íslensku efnahagslífi í samband við önnur ríki. Íslenskir bankar fá ekki lánafyrirgreiðslu í útlöndum í dag. Íslenska ríkið getur ekki leitað lánafyrirgreiðslu á erlendum mörkuðum í dag.

Íslensku atvinnulífi mun blæða út ef við tökum ekki nauðsynlegar ákvarðanir sem fyrst í gjaldeyrismálum þjóðarinnar. Þeir stjórnmálamenn sem gæla við þá hugmynd að ýta þessum brýnu verkefnum á undan sér út þetta ár snuddast í þeim svona á milli kaffitíma, það eru menn sem ógna brýnustu hagsmunum þjóðarinnar.

Við megum engan tíma missa að leggja inn aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Það er grundvallaratriði til að hefja hér endurreisn íslensks atvinnulífs. Til þess að tryggja fjárflæði til bankanna og til að skapa einhverjar vonir um það að íslenska krónan geti losnað við þau hörmulegu gjaldeyrishöft sem við þurfum að búa við í dag.

Þeir stjórnmálamenn sem ásökuðu okkur sem vöruðum við veikleika íslensks gjaldmiðils á síðustu árum og sökuðu okkur um ábyrgðarleysi og að líta ekki til brýnustu úrlausnarefni efnahagslífsins bera þunga ábyrgð. Öllum hagspekingum ber saman um að það eina sem við hefðum mögulega getað gert til að afstýra hruni síðasta árið hefði verið að leggja inn aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

Virðulegi forseti. Ríkisstjórn verður að hafa framtíðarsýn. Hún verður að tala skýrt. Hún verður að virða fólkið í landinu. Hlusta á það og vinna með því.