136. löggjafarþing — 70. fundur,  22. jan. 2009.

staða efnahagsmála og horfur á vinnumarkaði, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:11]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir skýrsluna sem hann flutti hér áðan og fyrir þær umræður sem hér hafa farið fram sem hafa verið málefnalegar og lýsa sjálfsagt því að þingmenn gera sér mjög glögga grein fyrir alvarleika þess sem við stöndum frammi fyrir í þjóðlífi okkar. Ég vil sérstaklega taka undir ummæli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar þegar hann fjallaði um mótmæli og sagði og hvatti fólk sem vildi mótmæla að gæta stillingar. Að fara friðsamlega fram og vera innan laga og réttar.

Þetta er grundvallaratriði sem verður að leggja áherslu á. Það verður að leggja áherslu á að allir lýðræðissinnar, hvar í flokki svo sem þeir standa, standi saman um að lýðræðislega kjörin stjórnvöld og embættismenn geti unnið verk sín með eðlilegum hætti.

Það verður líka að gera þá kröfu til annarra sem ríka ábyrgð bera í þjóðfélaginu að þeir reyni að halda uppi eðlilegu þjóðfélagi og þar bera ekki síst fjölmiðlar mjög ríka ábyrgð.

Ljóst er að allt of langur tími hefur liðið án þess að þjóðin fái glögga yfirsýn og upplýsingar um hvaða vandi sé fyrir höndum. Hvaða líkur séu á því að þjóðin geti risið undir þeim skuldbindingum sem á hana hafa verið lagðar. Hvaða tími og hvaða möguleikar eru fyrir hendi. Hvað framtíðin beri í skauti sér. Ekki hefur verið talað nægilega skýrt.

Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að erfitt er að tala skýrt í ástandi sem er jafnruglingslegt og það er í heiminum í dag. Samkvæmt því sem kemur fram í ársriti hins virta tímarits The Economist fyrir 2009 segir frá því að virtasta greiningarfyrirtæki í heimi Standard & Poor meti það þannig að tveir þriðju hlutar af öllum útlánum banka í heiminum árið 2007 séu ónýtir. Þannig að íslenska bankakerfið hefur ekki sérstöðu miðað við það sem hefur verið að gerast í heiminum.

Finnst okkur þó nægjanlegt og yfirdrifið það sem yfir okkur hefur dunið og það sem við horfum upp á þar sem menn hafa verið í alls kyns hráskinnaleik — að því er virðist vera skipulagðri glæpastarfsemi — til að koma hlutum fyrir með öðrum hætti en raunveruleikinn gat sýnt fram á. Því verður að taka á og menn verða að bera ábyrgð. Líka hefur of langur tími liðið án þess að raunveruleg rannsókn á þeim meintu afbrotum sem ég tala hér um hafi farið af stað.

En við búum við annan vanda og það er sundurþykk ríkisstjórn. Við búum við ríkisstjórn þar sem annar stjórnarflokkurinn og stór hópur þingflokks stjórnarflokksins, þ.e. Samfylkingarinnar, lýsir því yfir að úti sé um líf ríkisstjórnarinnar. Með einum eða öðrum hætti hafa þeir gert það og hvetja til kosninga. Þegar svo háttar til er útilokað fyrir ríkisstjórn að geta staðið frammi fyrir og axlað þá ábyrgð sem verður að ætlast til af hverri ríkisstjórn við þær alvarlegu aðstæður sem eru í þjóðfélaginu. Við verðum því að gera kröfu til þess, og ég tek undir með hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni, að hér verði að komast á starfhæf ríkisstjórn sem víðtæk sátt geti orðið um, helst þjóðstjórn til þess að vinna fram að kosningum. Það er grundvallaratriði að þannig verði farið fram vegna þess að a.m.k. annan samstarfsflokkinn í ríkisstjórninni hefur þrotið örendið. Þá gengur ekki að ætla að halda áfram stjórnarsamvinnunni. Það þjónar hvorki hagsmunum ríkisins né fólksins í landinu.

Við horfum fram á vandamál sem verður að taka á. Verðtrygging er eitt stærsta vandamál sem heimilin í landinu horfa fram á. Það verður að hafa eðlilega lánastarfsemi í landinu og tryggja að fyrirtæki sem eiga möguleika, geti fengið eðlilegar lánveitingar og fyrirgreiðslu til að koma inn í þá starfsemi og brydda upp á nýjungum til þess að atvinnulífið standist og hér verði ekki um fjöldaatvinnuleysi að ræða. Þetta skiptir gríðarlegu máli.

Við höfum heyrt skilgreiningar háskólamanna á því hvað fór úrskeiðis. Það er fortíðarvandi sem verður skilgreindur betur þegar hlutirnir skýrast. En það er framtíðin sem er spurningin og mikilvægasta atriðið. Við þurfum að móta nýtt Ísland. Við þurfum að breyta stjórnskipuninni. Við þurfum að siðvæða stjórnmálin. Við verðum að siðvæða fjármálakerfið. Við verðum að koma á jöfnuði og jafnrétti og tryggja að allar náttúruauðlindir þjóðarinnar verði raunveruleg þjóðareign.