136. löggjafarþing — 71. fundur,  22. jan. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

258. mál
[14:08]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og þingmenn muna þá lagði ég þetta frumvarp fram tiltölulega snemma á síðasta þingi. Þetta mál fékk mjög mikla yfirferð í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis þannig að þingmenn höfðu mjög góðar forsendur til að kynna sér það.

Þetta mál var einnig sent út til umsagnar og eftir að ég fékk um það áskoranir frá fjöldamörgum aðilum, m.a. afurðastöðvunum og bændunum, ákvað ég að fresta afgreiðslu þess og leggja ekki áherslu á að málinu yrði lokið fyrir þinglok í fyrra. Tíminn var síðan notaður mjög rækilega til þess að fara yfir allar þessar umsagnir til þess að reyna að koma til móts við sjónarmið þeirra sem vildu tryggja veg landbúnaðarins sem allra best, og ég fullyrði að það hefur tekist.

Ekki þarf annað en að lesa viðbrögð bænda og bændaforustunnar, sem hafa komið fram opinberlega, þeir segja að hér hafi verið unninn heilmikill sigur af þeirra hálfu með þeim breytingum sem gerðar hafa verið.

Það er engin ástæða til að fresta þessu máli frekar. Ég vek athygli á því að gildistakan sem snýr að landbúnaðinum sjálfum er ekki fyrr en eftir 18 mánuði. Á þeim tíma munum við þurfa að vinna alls konar aðra undirbúningsvinnu sem ekki verður hægt að klára fyrr en að þessum lögum samþykktum. Þar á meðal er gert ráð fyrir að við munum afla okkur viðbótartrygginga vegna góðrar sjúkdómastöðu varðandi salmonellu og við munum því með enn betri hætti geta tryggt stöðu íslensks landbúnaðar.

Ég vil vekja athygli á því, og það er kjarni þessa máls, að við höfum stundað útflutning inn á Evrópusambandslöndin á grundvelli matvælalöggjafar sem búið er að afleggja. Það er ljóst að við svo búið getur ekki staðið til neinnar framtíðar. Þess vegna erum við stödd í þeim sporum að við verðum að taka yfir þessa matvælalöggjöf til þess að gæta bæði hagsmuna landbúnaðar og sjávarútvegs. Við höfum þar heilmikið svigrúm til að tryggja sem best stöðu landbúnaðarins. Ég hef í þessu frumvarpi nýtt þetta svigrúm eins og kostur hefur verið og mun gera það í framkvæmdinni ef ég á þess kost.