136. löggjafarþing — 71. fundur,  22. jan. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

258. mál
[14:12]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú einfaldlega þannig að það er lögboðið að áður en stjórnarfrumvarp er lagt fram fari það í kostnaðarmat hjá fjárlagaskrifstofunni. Það var gert í fyrra þegar frumvarpið var lagt fram og það var líka gert núna þegar frumvarpið var lagt fram að nýju.

Það var mat fjármálaráðuneytisins og þeirra sérfræðinga sem þar starfa að engar þær forsendur hefðu breyst í sjálfu frumvarpinu, þó við værum að gera margs konar aðrar efnisbreytingar á því, sem kölluðu á það að þeir breyttu í neinum stórum málum að minnsta kosti kostnaðarumsögn sinni. Þess vegna liggur fyrir að þær tölur sem þeir höfðu reiknað sig í gegnum áður en fyrra frumvarpið var lagt fram standast miðað við þær forsendur sem frumvarpið byggist á. Þess vegna er engin ástæða til annars en að halda þessari umræðu áfram. Þetta mál hefur verið vandlega undirbúið eins og ég hef þegar rakið og gert með skírskotun til þeirra athugasemda sem hafa borist um það mál.

Hins vegar fer þetta frumvarp þegar þessari umræðu er lokið til sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis sem hefur þá allar forsendur til að fara betur ofan í kostnaðarþætti málsins ef nefndin kýs að gera það. Og ég tel sjálfsagðan hlut að gera það. Það er auðvitað hægt með því að ræða við sérfræðinga sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, með því að ræða til að mynda við þá sérfræðinga sem starfa á þessu sviði hjá Matvælastofnun, sem hefur að miklu leyti með framkvæmd þessara laga að gera, og auðvitað líka þá sérfræðinga fjármálaráðuneytisins sem unnu þessa kostnaðarumsögn.