136. löggjafarþing — 71. fundur,  22. jan. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

258. mál
[14:34]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spurði mig nokkurra spurninga. Hann velti því t.d. fyrir sér hvort við værum að lögfesta þessa löggjöf Evrópusambandsins með öðrum hætti en Norðmenn gera. Þá er rétt að undirstrika að Norðmenn eru búnir að lögfesta þessa löggjöf. Þingmaðurinn segir að það vanti reglugerðir sem þessi löggjöf byggi á. Það vill svo til að þær reglugerðir eru í þessari möppu og alveg eins og aðrar reglugerðir hefur þeim öllum verið dreift til nefndarmanna í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Þar situr hv. þingmaður og hann getur kynnt sér þessi mál þar.

Hins vegar erum við að lögfesta þetta með öðrum hætti en Norðmenn vegna þess að við göngum lengra í lögfestingunni. Norðmenn gera það með þeim hætti að þeir eru með almennar heimildir til kóngsins, með öðrum orðum til framkvæmdarvaldsins, varðandi þessa innleiðingu. Við göngum mun lengra og okkar löggjöf er að þessu leyti miklu nákvæmari og meira í anda þess sem við gerum almennt þegar við lögfestum atriði af þessu tagi.

Hv. þingmaður spurði mig líka um salmonelluna. Eins og ég nefndi í ræðu minni er verið að vinna að því að við fáum sérstöðu okkar metna, góða sjúkdómastöðu okkar að þessu leyti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að auðvitað skiptir það mjög miklu máli og við teljum að við höfum mjög góðan málstað þar sem gerir það að verkum að við getum takmarkað innflutning á kjöti við þau svæði sem uppfylla þessi skilyrði jafnframt.

Hv. þingmaður talaði um að verið væri að opna á eftirlitslítinn innflutning. Það var eins og hv. þingmaður horfði fram hjá öllu sem verið er að setja inn í þessa löggjöf og ég gerði ítarlega grein fyrir. Bændasamtökin sendu frá sér ítarlega umsögn og í henni er fyrst og fremst vikið að því og vísað til þess að 13. gr. EES-samningsins veiti okkur rúmar heimildir til svona takmörkunar. Við göngum í sjálfu sér lengra en þessi umsögn kveður á um vegna þess að það er sett sem skilyrði og skylda á starfandi landbúnaðarráðherra hverju sinni að setja reglugerðir í þessum efnum og það kemur fram í athugasemdunum og kom fram í ræðu minni (Forseti hringir.) að þar verður stuðst við og byggt á þeirri reglugerð sem hefur verið í gildi frá árinu 2002.