136. löggjafarþing — 71. fundur,  22. jan. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

258. mál
[14:36]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. sjávarútvegsráðherra fyrir andsvarið. Ég hef ekki séð þessar reglugerðir og hæstv. ráðherra mun e.t.v. upplýsa hvort hér er um drög að ræða eða eldri reglugerðir. Er um drög að ræða sem á að setja í kjölfar lögfestingar þessa frumvarps? Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd hefur ekki haldið fund um þetta mál þannig að ég hef ekki séð hugsanleg drög að reglugerðum sem hæstv. ráðherra vísar til. Það er alveg á hreinu að Bændasamtökin og hagsmunaaðilar leggjast allir sem einn gegn þessu frumvarpi, hæstv. ráðherra, og það verður munað hverjir að þessu standa.

Ég vil hins vegar spyrja hæstv. ráðherra: Er hann tilbúinn að fara þá leið sem Norðmenn fara varðandi tollana? Er hann tilbúinn að hækka tolla í þeirri stöðu sem upp er komin eftir efnahagshrunið? Við stigum nefnilega það ólánsskref fyrir nokkrum árum að lækka tolla mjög verulega á landbúnaðarvörum. Nú eru gjörbreyttar aðstæður, við verðum að tryggja vinnu innan lands þannig að það eru komin ný rök í pottinn, hæstv. ráðherra, um að taka upp tollakerfi sem takmarkar þennan innflutning. Það er auðvitað aðeins ein hugsun sem á að gilda og það er að tryggja atvinnu, það er að vernda bændur. Við megum ekki missa eitt einasta bú úr rekstri á Íslandi, við verðum að fjölga búum vegna þess að við eigum að stíla upp á innlenda framleiðslu. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað ætlar hann að gera varðandi tollana og hvað ætlar hann að gera til að tryggja það að bú fari ekki í þrot? Hvað ætlar hann að gera í sambandi við virðisaukaskattinn í febrúar, hvað ætlar hann að gera í sambandi við áburðinn í vor o.s.frv.?