136. löggjafarþing — 71. fundur,  22. jan. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

258. mál
[14:56]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er nú svolítið dapurlegt að vera að ræða þetta mál eins og það er vaxið og aðstæðurnar sérstakar þegar það er komið hér á dagskrá af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og forustu þingsins. Út af fyrir sig væri þarft og brýnt að taka hér ýmis mál sem varða landbúnaðinn fyrir. En þau mættu þá gjarnan vera af öðrum toga en þetta. Þessu máli var í raun hafnað hér. Það er eiginlega ekki hægt að orða hér öðruvísi. Þessu máli var hafnað hér síðastliðið vor enda reis upp mikil andstaða gegn því innan þings og utan. Bændasamtökin, fyrirtæki í matvælaiðnaði og afurðastöðvar, fjölmörg sveitarfélög þar sem miklir hagsmunir eru í húfi í landbúnaði og matvælaiðnaði, verkalýðsfélög og fleiri aðilar, kvenfélög jafnvel létu þetta til sín taka og það reis mikil andstöðubylgja við málið. Svo fór að hæstv. ríkisstjórn heyktist á því að knýja það í gegn og það var ekki hærra á henni risið en svo að hún dró það að leggja þetta mál fram þó nokkuð fram á haustþingið, ef ég man rétt, og það er að koma hér til 1. umr. nú. Það er í sjálfu sér ekkert skrýtið þó að ríkisstjórnin sé í beyglu með þetta vegna þess að það gengur erfiðlega að sannfæra menn um, sem vonlegt er, í fyrsta lagið að það sé nauðsynlegt eða óumflýjanlegt að gera þetta með þessum hætti. Þaðan af síður gengur vel að sannfæra nokkurn hugsandi mann um að þetta sé eitthvert framfaraspor fyrir Ísland. Ég held að það fari ákaflega fátt og lágt um þau rök. Það eru nauðhyggjurökin við bara verðum að gera þetta. Þá er þetta þannig að fyrst gefa menn þetta eftir í samningaviðræðum erlendis, tiltölulega umboðslausir vegna þess að það er nú ekki kannski borið undir marga þegar ráðherra eða ríkisstjórn gefur embættismönnum heimild um að það megi leggja af stað með Ísland inn í leiðangur af þessu tagi eins og gerðist í tíð fyrri ríkisstjórnar, ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Nú man ég ekki nákvæmlega hvenær það var en hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir er til dæmis hér til upplýsinga og heimilda um það enda mun hún vera á mælendaskrá.

Síðan gerist það þegar að ríkisstjórn ákveður í október 2007 að heimila staðfestingu á ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar sem fela þetta efnislega í sér að undanþága okkar frá I. kaflanum í I. viðauka við EES-samninginn um upptöku löggjafar Evrópusambandsins að upptöku Evrópuréttarins á þessu sviði hvað varðar matvæli og fóður er gefinn eftir. Svo koma menn til þingsins og segja: „Því miður. Þetta er ekki gott mál en við verðum bara að gera þetta og við verðum að láta okkur hafa þetta.“ Og notuð eru ýmiss konar hræðslurök eða nauðhyggjurök um að við höfum verra af ef við gerum þetta ekki og svo framvegis. Þetta er nú ekki rismikill farvegur fyrir mál yfirleitt til að bera fram á löggjafarþinginu.

Á sínum tíma þegar EES-samningurinn var gerður, svo umdeildur sem hann nú var og ekki var nú síst talsverð tortryggni í hans garð ríkjandi í sveitum og meðal bænda og landbúnaðarins og matvælaiðnaðarins, einnig í sjávarútveginum sumpart þó menn hefðu þar auðvitað ríkan skilning á þörfinni fyrir að hafa greiðan markaðsaðgang fyrir okkar vörur, að þá var þetta notað talsvert sem rök. Ég held að minni mitt svíki ekkert í því efni, herra forseti, að gegn þeim efasemdum og þeirri andstöðu sem varð við EES-samninginn og áhyggjur til dæmis sem fólk hafði af því að jarðnæði kynni að lenda í höndum útlendinga — mjög kunnugleg umræða frá Evrópumálaumræðunni í Danmörku sem leiddi til þess á sínum tíma upphaflega að Danir fengu hina frægu sumarbústaðalóðaundanþágu sem þeir halda enn ef ég veit rétt vegna þess að Danir óttuðust að hinir ríku Þjóðverjar mundu streyma þar yfir landamærin og hreiðra um sig, kaupa upp land til sumarnota eða í atvinnuskyni. Það mega Danir eiga að þeir vörðu sig að þessu leyti og hafa gert nokkuð snöfurmannlega. Þeir voru sem sagt ekki alveg á hnjánum og létu ekki allt leka niður auk þess sem danska þjóðin hefur aftur og aftur tekið í kosningum fram fyrir hendur ríkisstjórna og fellt samninga sem hún hefur komið með heim og skipað Dönum að semja upp á nýtt.

Ég held að þetta sé umhugsunarefni fyrir okkur, herra forseti, vegna þess að hér hefur það ekki enn gerst — aldrei — að íslensk stjórnvöld eða samningamenn fyrir þeirra hönd hafi staðið þannig að málum að við höfum náð fram eða varið varanlegar undanþágur eða sérmeðferð mála af okkar hálfu. Þau tilvik sem hægt er að nefna um það eru svo sárafá og þau varða í öllum tilvikum einhverja svo fáránlega hluti, einhverja svo fráleita hluti sem allir sáu að áttu ekkert erindi til Íslands eins og tilskipun um viðskipti með jarðgas eða eitthvað slíkt. Þess vegna er hér verið að gefa eftir veigamikinn og afdrifaríkan þátt sem var án efa ein af ástæðum þess að EES-samningurinn fékkst yfir höfuð samþykktur, að menn voru fullvissaðir um að að þessu leyti, þessu afar mikilvæga leyti yrði íslenskur landbúnaður tryggur og varinn, að við gætum haldið okkar ströngu reglum sjúkdómavarna og heilbrigðisákvæðum á grundvelli undanþágunnar sem fékkst við þennan I. viðauka.

Nú þarf ekki að fjölyrða hér fyrir hv. alþingismenn um mikilvægi landbúnaðarins og matvælaiðnaðarins sem mönnum er ljósar nú í dag og við núverandi aðstæður heldur en kannski oft áður eða um langa hríð áður. Það má segja að nú lofi allir og prísi það að krötum og fleirum tókst ekki að eyðileggja landbúnaðinn. Við höfum þó þessa öflugu matvælaframleiðslu og þennan mikla iðnað sem á honum byggist. Og þjóðin hefur brugðist vel við og keypt íslenskar vörur sem aldrei fyrr.

Eftir sem áður eru miklir erfiðleikar í íslenskum landbúnaði. Það er mjög tvísýnt um framtíð margra bænda að óbreyttu. Staðan er til dæmis þannig í landbúnaði að það er með öllu óvíst hvort drjúgur hluti bænda ráði við virðisaukaskattsgreiðslur núna 1. mars næstkomandi. Það liggur alveg fyrir að bændur kvíða því og fjölmargir þeirra muni ekki kljúfa það að inna þær greiðslur af hendi. Það liggur sömuleiðis ljóst fyrir að verulegur hluti bænda mun eiga í miklum erfiðleikum að óbreyttu með að leysa út áburð í vor.

Þess vegna væri nú ánægjulegra, virðulegi forseti, ef við værum hér að ræða um það hvernig ríkisstjórnin ætlar að reyna að styðja þessa atvinnugrein gagnvart svona hlutum en að hún skuli koma hér með þetta mál sem gæti kippt fótunum undan mikilvægum greinum íslensks landbúnaðar, valdið verulegri fækkun starfa í bæði frumframleiðslu og úrvinnslu og ofan á allt saman falið í sér verulegar hættur hvað varðar hollustu og heilnæmi og manneldissjónarmið, þýtt til dæmis að sá glæsilegi árangur sem við höfum náð á sviði sjúkdómavarna og hvað það varðar að hafa ósýktar afurðir á markaði, lausar við salmonellu og kampýlóbakter og annað slíkt, að þessu sé nú öllu stofnað í hættu.

Það var mjög alvarlegt þegar fyrri ríkisstjórn ákvað að gefa það eftir og leggja upp í samningaviðræður um að við féllum frá þessari undanþágu sem við höfðum. Það er á hennar ábyrgð. Það var líka mjög alvarlegt að núverandi ríkisstjórn skyldi ljá máls á því að við tækjum þátt í þessari ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar og að það yrði fallist á að hún yrði staðfest.

Þá kemur að innleiðingunni sjálfri sem skiptir auðvitað máli þó langvænlegast sé að hafna þessu máli, þ.e. meginþætti þess. Þetta mál snýst í grunninn um afar einfaldan hlut, að hér eigi að fara að heimila innflutning á hráu kjöti og reyna svo að viðhafa svona eftir á eða í besta falli samtímaeftirlit með því að það sé ekki sýkt eða mengað eða feli í sér sjúkdómahættu. Þessum þætti málsins á auðvitað að hafna. Honum á að hafna.

Það sem ég sakna — og gaman væri að hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra mætti hér við bindast í salnum smástund eða þá að formaður landbúnaðarnefndar og sjávarútvegsnefndar svari þessu — það sem ég sakna sérstaklega er að það hefur aldrei verið kortlagt svo ég viti hvaða möguleg úrræði við ættum í þeim efnum hvað varðar þá mismunandi útgáfu af innleiðingunni og leiðir til þess að komast — við skulum bara orða það hreint út — fram hjá þeim þætti málsins að hafa hér opið fyrir innflutning á hráu kjöti. Það vill svo til að ég sat einn eða tvo fundi um þetta mál í forföllum nefndarmanns okkar í landbúnaðar- og sjávarútvegsnefnd og eitthvað rifjast nú upp fyrir mér í þessum málaflokki svona þegar vel liggur á mér. Ég fór að spyrja embættismenn — af því að þeir eru nú hér örugglega í hliðarsölum einhverjir sem kannast við málið: — Bíddu, hefur ekkert verið skoðað í fyrsta lagi til dæmis að aðskilja þetta með skýrum hætti hvað varðar annars vegar sjávarútvegshliðina og hins vegar þennan landbúnaðarþátt og í öðru lagi hvaða svigrúm við kunnum að hafa ef við notum okkur það til hins ýtrasta til þess að innleiða þetta á okkar forsendum og á okkar hátt þannig að við náum fram því meginmarkmiði okkar að hafa ekki opið fyrir innflutning á hráu kjöti? Ég hef ekki séð slíka kortlagningu. Ætlar virðuleg landbúnaðarnefnd þá að ráðast í að gera hana þó seint sé? Og hún á að taka sér þá góðan tíma til þess. Ekki liggur á.

Ég skal nefna dæmi um það hvað ég er hér að hugsa. Er það fullvíst, ef sá kostur verður ekki valinn sem bestur er að hafna þessu máli, er þá kannski næstbesti kosturinn og sem að mínu mati væri algert úrslitaatriði ef hægt ætti að vera að sætta sig við þetta á einhvern hátt, að við fáum og bara ákveðum að standa þannig að innleiðingunni að við gætum sett upp bannlista og bannlistalönd eða svæði og snúið þar í raun reglunum við að sjálfsögðu á grundvelli málefnalegra sjónarmiða og raka sem við hefðum til þess að gera slíkt. Með öðrum orðum þá gætum við dregið upp landakortið, við gætum skoðað smitástand, sýkingarástand, sjúkdómastöðu og síðan listuðum við upp lönd jafnvel í fleiri en tvo flokka — ekki endilega bara grænt og rautt eða svart og hvítt — og hefðum slíkan lista og styddumst við þannig að það væru þá ekki nema þau lönd sem að öllu leyti uppfylltu okkar kröfur sem hefðu þennan sjálfvirka rétt að flytja frá sér og til okkar hrátt kjöt.

Nú notast Evrópusambandið sjálft við talsvert af svona regluverki. Þó hin almenna regla sé með tilteknum hætti þá eru ýmiss konar bannlistar og flokkun eftir sem áður viðhöfð. Þetta á að skoða og er að mínu mati það allra lengsta sem ég vil segja að ég fyrir mitt leyti gæti hugsað mér að ganga í þessum efnum. Og þá á að gera það. Þá eigum við að innleiða málið á þennan hátt og taka slaginn við hina háu herra um það og fara í málflutning og rökstyðja okkar mál. Við mundum þá í leiðinni kaupa okkur í öllu falli tíma og verja okkur jafnvel í nokkur ár í viðbót. Hvað væri í hættu þó það myndaðist einhver ágreiningur og skak um þetta ef við hefðum sannarlega innleitt málið, hefðum gert það á þann hátt einan sem við teljum að við getum vegna aðstæðna okkar og hagsmuna og sérstöðu?

Ég skil ekki þessa óskaplegu mýkt alltaf, þessa óskaplegu hnjáliðamýkt alltaf sem kemur upp í mönnum þegar hið háa Evrópusamband og regluverk þess á í hlut. Það má aldrei láta reyna á nokkurn skapaðan hlut. Hvað með það þó ágreiningur stofnaðist um að þeir segðu að þetta væri ekki alveg í samræmi við það sem ætti að gera og við segðum jú því vegna þess hvernig aðstæður Íslands eru þá verðum við við að gera þetta svona? Við höfum málefnaleg rök fyrir því og þau eru þessi og þessi og þessi. Málið færi svo í eitthvert ferli og þetta yrði kannski eitthvert hnoð og hver veit nema að við hefðum það upp úr krafsinu að lokum að við fengjum frið með að gera þetta á þann hátt sem væri lífvænlegur fyrir okkur.

Ég sé ekki að þessi vinna hafi verið unnin. Frumvarpið kom hér mjög illa unnið og hrátt. (Forseti hringir.) enda er landbúnaðarráðherra með það á harðahlaupum, búinn að gera á því breytingar. (Forseti hringir.) Þetta eru svona smáandlitslyftingar. En meginatriðið stendur enn og það er það sem þarf að fara út úr málinu að hér verði (Forseti hringir.) ekki galopið fyrir innflutning á hráu kjöti.