136. löggjafarþing — 71. fundur,  22. jan. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

258. mál
[15:16]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Vegna þess sem ég nefndi áðan um rotmassann sem heimilaður var fyrir um 20 árum þá minnist ég þess að hæstv. þáverandi landbúnaðarráðherra gaf út reglur um hvernig farga skyldi rotmassa. Það væri gaman að sjá öll þau gögn. Ég man vel eftir þeirri umræðu.

Annað sem hv. þingmaður fór yfir áðan var innflutningur á kartöflum og hann nefndi þá kartöflur frá suðlægari Evrópulöndum. Það atriði sem við þurfum virkilega að skoða hvað þennan málaflokk varðar eru upprunavottorðin vegna þess að við innflutning til Íslands er verið að brengla með þessi upprunavottorð, ekki bara af hálfu þeirra sem flytja vöru hingað, það er verið að flytja inn vöru á fölskum forsendum inn í Evrópusambandið. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að þar þurfum við að vera vel á verði.

Ég minni á, herra forseti, að við erum aðilar að EES-samningnum, við erum aðilar að alþjóðasamningnum WTO og þar er verið að opna ákveðna múra. Það er staðreynd og hefur nú þegar tekið gildi á Íslandi. Sú samningalota er enn í gangi og er ekki lokið. Það eru því víða hindranir sem við þurfum að fylgjast með. Verið er að taka niður girðingar fyrir heimsviðskipti á landbúnaðarvörum. Það er ekki einvörðungu varðandi þetta matvælafrumvarp sem við þurfum að vera vakandi fyrir hagsmunum okkar, hagsmunum heilbrigðis og matvælaöryggis, heldur líka varðandi aðra alþjóðasamninga og ég tala nú ekki um ESB-umræðuna sem hér er hamrað á eins og hávaðinn á Austurvelli í dag.