136. löggjafarþing — 71. fundur,  22. jan. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

258. mál
[15:21]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er áhugavert í ljósi þeirra ummæla sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafði um landbúnaðarstefnu krata í ræðu sinni hvernig stendur á ákalli hans til Samfylkingarinnar um að koma í ríkisstjórnarsamstarf. Það er væntanlega ekki vegna landbúnaðarstefnu hennar ef skilja má orð hans rétt. Það er vitað að Samfylkingin hefur mikinn áhuga á inngöngu í Evrópusambandið með öllum þeim reglum sem því fylgir. Við erum hér m.a. með afleiðingu reglugerða Evrópusambandsins sem við verðum að taka upp samkvæmt EES-samningnum því að framkvæmdastjórnin gerði það að skilyrði þegar hún var búin að endurskoða matvælalöggjöfina að við tækjum þetta upp og undan því verður víst ekki vikist hvað sem okkur að öðru leyti finnst um það.

Hv. þingmaður beindi því til mín hvort skoðað hefði verið að kortleggja einstök svæði þar sem menn teldu vera sérstakt smitástand og þá mætti væntanlega ekki flytja inn vörur frá þeim svæðum. Evrópusambandið gengur auðvitað ekki út á aðskilja svæði þannig heldur er lagt til og gert ráð fyrir að varðandi salmonelluvarnir fylgi fullgilt vottorð hvort sem varan kemur frá Svíþjóð þar sem er talið heldur gott ástand eða Póllandi þar sem menn telja að sé heldur verra ástand.

Varðandi kampýlóbaktersmitun verður auðvitað tekið upp verklagskerfi sem byggir á því að hægt verði að skoða innflutning á vörum með tilliti til slíkrar smitunar.