136. löggjafarþing — 71. fundur,  22. jan. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

258. mál
[15:26]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að búið sé að fara mjög vel í gegnum frumvarpið í þessum tveimur umgöngum og búið að leita allra leiða sem hægt er miðað við hina sameiginlegu löggjöf Evrópusambandsins og hvernig hægt er að passa upp á að við höfum hér einhverjar varnir. Mér er fullkomlega ljóst, og hef auðvitað farið í gegnum þá umræðu í nefndinni þegar frumvarpið var þar hið fyrra sinnið, afstaða margra til frumvarpsins en það er líka búið að taka tillit til margra athugasemda sem komu fram við frumvarpið þegar það var til umfjöllunar í nefndinni. Auðvitað hræðast menn helst að innflutningur á hráu kjöti muni ógna matvörumarkaðnum hér og sérstaklega kjötvinnslum sem muni þá hugsanlega eiga undir högg að sækja, en eins og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fór yfir er auðvitað heilmikil vörn í tollunum og ég vona að svo verði áfram að við getum haldið uppi slíkri vörn. Komið hefur fram að ekki eru allir stjórnmálaflokkar mjög hrifnir af þeirri vörn en tollarnir eiga alla vega að gefa þá vörn sem dugar auk þeirra varna sem nú eru komnar inn í frumvarpið, að sanna verður með vottorðum að salmonella sé ekki til staðar, að ekki sé um salmonellusmitað kjöt að ræða. Eins mun verða með kampýlóbaktervarnirnar, heimilt verður að skoða innflutning á kjöti sem hugsanlega gæti verið kampýlóbaktersmitað og auðvitað verður gengið mjög hart eftir því.