136. löggjafarþing — 71. fundur,  22. jan. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

258. mál
[15:28]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ef svo er að búið sé að fara óskaplega vel í gegnum þetta og það verði ekkert frekar að gert, þá finnst mér ósköp einfaldlega óásættanlegt að gera þetta svona og þá verða menn að skoða, hvað gera Danir þá? Ef ekki eru færar neinar slíkar leiðir sem ég hef talað fyrir að verði skoðaðar til þrautar og mér finnst geta komið til greina að séu færar fyrir okkur að innleiða á þann hátt sem lifandi væri með af okkar hálfu.

Þegar vísað er til tollverndarinnar þá eru mikil göt í henni eins og ég veit að hv. þingmaður veit. Tollar voru lækkaðir fyrir skemmstu, því miður, á sumum flokkum sem er ákaflega tilfinnanlegt nú ef þetta á að verða og þeir reynast hættulega lágir og miklu lægri en t.d. í Noregi einmitt á sumum hráum vörum. Það eru mörg göt þar sem ég veit að hv. þingmaður þekkir. Það er það sem m.a. bæði svína- og sérstaklega kjúklingabændur óttast og matvælaiðnaðurinn, úrvinnslan, vegna þess að sá iðnaður byggir ákaflega mikið á því að hafa heildina, hafa þá umsetningu og þá samfellu sem fellur til með reglubundinni vinnslu þeirra afurða sem falla til jafnt allt árið eins og í svína- og kjúklingaræktinni. Þetta eiga allir þeir að vita sem þekkja til. Og það að við skulum vera hér með mál í höndunum sem kann að stofna í verulega hættu gríðarlegum atvinnuhagsmunum svo þúsundum starfa skiptir þegar matvælaiðnaðurinn er tekinn með. Við getum tekið t.d. Norðausturkjördæmi þar sem eru gríðarstór matvælaiðnaðarfyrirtæki eins og Norðlenska, Kjarnafæði, Fjallalamb og mörg fleiri. Í sumum byggðarlögum vegur þetta umtalsvert, er kannski eini stóri vinnuveitandinn þar eins og Fjallalamb á Kópaskeri eða Norðlenska á Akureyri og Húsavík og Kjarnafæði á Svalbarðseyri, þannig að miklu nemur. Það er dapurlegt á tímum þegar verið er að spá okkur 10% atvinnuleysi í lok ársins og kannski yfir 20 þúsund manns á (Forseti hringir.) atvinnuleysisskrá þegar kemur fram í næsta jólamánuð. Það er heldur dapurlegt.