136. löggjafarþing — 71. fundur,  22. jan. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

258. mál
[15:44]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir var, þegar við höfðum fyrra frumvarpið til meðferðar, helsti talsmaður eða stuðningsmaður frumvarpsins í meðförum í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og við körpuðum um það á flestum fundum nefndarinnar. Það er gott og blessað, en það var alltaf sagt: Við áttum ekki annan kost, við stöndum frammi fyrir þessu.

Ég verð að segja að ég trúi því ekki fyrr en ég sé skjöl um það eða tek á því að við höfum ekki átt kost á því að semja um að hér væri matvælaöryggi og eftirlitskerfi við lýði sem væri betra en í Evrópusambandinu. Reyndi á það, hv. þingmaður, í umræðunum eða ekki?

Því hefur enn fremur verið borið við að við fáum stöðu þriðja ríkis varðandi sjávarútveginn, því var haldið fram í upphafsmeðferð í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Það var hrakið í nefndinni og sá sem rak smiðshöggið á þá hrakningu var Þórólfur Gíslason, sá merki útvegsmaður, samvinnumaður og kaupfélagsstjóri með meiru frá Sauðárkróki. Hann sagði að svo væri ekki og þar með fór það, og fleiri tóku undir þau orð.

Tilefni þess að ég kem hér upp (Gripið fram í.) er að spyrja hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur hvort hún endurómi skoðun Framsóknarflokksins eða hvort hún hafi sérstöðu þar, því ég skildi ummæli af nýlegum fundi flokksins þar sem flokkurinn kaus sér nýjan formann á þann veg að það andaði köldu í garð þessa frumvarps. Nú hef ég ekki þau ummæli sem ég er að vísa til en mig minnir að nýkjörinn formaður hafi — mig minnir það, ég verð að hafa þann fyrirvara á því — lagst gegn þessu frumvarpi. Ég spyr því enn og aftur: Túlkar hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir afstöðu Framsóknarflokksins í málinu og styður flokkurinn frumvarpið?