136. löggjafarþing — 71. fundur,  22. jan. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

258. mál
[15:51]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nei, ég er ekki tilbúin að fara út með hv. þingmanni og reyna að ná betri samningum. Ég þekki bærilega til í utanríkisráðuneytinu og ég veit alveg að það var mikið reynt að ná enn betri samningi — ég tel að ýmsir hlutir hafi náðst fram — en það gekk ekki.

Ég mundi ekki vilja opna þennan samning gagnvart Evrópusambandinu vegna þess að þá gætum við staðið frammi fyrir því að missa þó það út sem náðist fram. Eins og t.d. það sem varðar lifandi dýr.

Afstaða Framsóknarflokksins í þessu máli hlýtur að koma fram í atkvæðagreiðslu. Ég hef talað með þessum hætti og sit í nefndinni og við skulum þá bara sjá til hvernig málið kemur út úr nefnd og til atkvæða. Það er engin ástæða til að vera með stórar yfirlýsingar um það hér á þessari stundu. Þetta er nú 1. umr. og mikið starf eftir í nefndinni en ég hlakka til að halda áfram að ræða þetta mál í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd.