136. löggjafarþing — 71. fundur,  22. jan. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

258. mál
[15:54]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hógværð mín kannski meinaði mér það að taka undir með hv. þingmanni að reyna að dæma hvort þetta væri góð eða slæm ræða. Mér fannst hún reyndar mjög góð þegar hún var flutt og eins og hún kemur upp í koll minn svona löngu síðar þá fannst mér hún enn þá hafa verið býsna góð.

Ég hef síðan haldið mjög margar ræður um þetta matvælafrumvarp víða um landið og ég held að ég hafi alls staðar talað með sama hætti. Ég hef reynt að gera grein fyrir út á hvað efni frumvarpsins gengur. Það muni væntanlega leiða til þess sem hv. þingmaður sagði en hins vegar séu miklar varnir í frumvarpinu og þær varnir hafa verið styrktar.

Þannig að það getur verið að eitthvað af því sem ég sagði í Valhöll fyrir ári eigi ekki alveg eins vel við og það átti þá af því að það er búið að styrkja svo mikið varnirnar í frumvarpinu. Það er gert með skírskotun til 13. gr. EES-samningsins og það er gert með pósitífum hætti eins og gert er í frumvarpinu. Þannig að ég geri ráð fyrir því að það sem ég sagði í Valhöll standist ekki alveg tímans tönn af því ég gerði þessar breytingar á frumvarpinu.