136. löggjafarþing — 71. fundur,  22. jan. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

258. mál
[15:56]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Hér er á dagskrá afturganga, frumvarp sem drepið var á fyrra þingi. Bændasamtökin stóðu fyrir því en það hefur nú verið magnað upp aftur og lagt fyrir á nýjan leik. Mér finnst leggjast lítið fyrir hv. fyrrverandi formann Framsóknarflokksins, hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur, að segja að Íslendingar hafi ekki átt annan kost en þann að kyngja þessari tilskipun Evrópusambandsins. Það var aldrei látið á það reyna. Það hefur skort á að leggja fram sannanir um það og ég segi bara: Þakka skyldi að innflutningur á lifandi dýrum var ekki heimilaður líka.

Ég nefndi í ræðu fyrr í dag forgangsröðun ríkisstjórnarflokkanna, þessarar vanhæfu ríkisstjórnar sem hér situr trausti rúin og ber nú fram matvælafrumvarpið öðru sinni. Það er nöturlegt að þessi ríkisstjórn hefur lagt sig fram um að ráðast sérstaklega að bændum í skjóli kreppunnar. Kreppan hefur verið notuð til að ráðast sérstaklega að bændum og nú vil ég, herra forseti, flytja nokkur rök fyrir þessum fullyrðingum mínum.

Ég vil minna á þá beinu kjaraskerðingu sem ríkisstjórnin lagði upp með og framkvæmdi með fjárlagafrumvarpinu í bandorminum fyrir jól þar sem annaðhvort 1.100 eða 1.300 millj. kr., ég man ekki hvort heldur er rétt, voru teknar beint af bændum. Það er kjaraskerðing upp á 1.100 eða 1.300 millj. kr. (Gripið fram í: 800.) 800, er sagt úr sal, ég skal viðurkenna að ég man ekki þessar tölur en þessi beina kjaraskerðing skipti hundruðum milljóna. Hvernig var það gert? Það var gert með svikum á búvörusamningum með því móti að verðbætur á búvörusamningana voru teknar af, reyndar á nákvæmlega sama hátt og verðbótin á lífeyrisgreiðslum til 3/4 hluta öryrkja og ellilífeyrisþega var tekin af. Þessir hópar, bændur annars vegar og öryrkjar og ellilífeyrisþegar hins vegar, eiga að fá 5,7% verðbætur á launin sín eins og gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu áður en kreppan skall á. Verðbótakúfurinn var tekinn ofan af þar. Það var í lagi. Þá skipti engu máli að verðbólgan og verðbæturnar sem búið var að semja um við bændur, ellilífeyrisþega og örorkulífeyrisþega voru í takt við verðbólguna sem samkvæmt nýrri spá í dag verður um 13% á þessu ári. (Gripið fram í: Það er góð ríkisstjórn.) Það er svo góð ríkisstjórn, já. Það er vanhæf ríkisstjórn sem gengur svona fram og leggur sig sérstaklega fram um að ráðast gegn bændum. Þessi beina kjaraskerðing sem ég hef nefnt er ekki nóg.

Ég vil minna á að bændur hafa tekið verðtryggð lán, bæði til kaupa á húsnæði og til kaupa á búmarki. Ég hlýt að spyrja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hvernig hann ætlar að fara með það misgengi sem þarna mun myndast vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar með kjaraskerðingunni og svikunum á búvörusamningnum. Ætlar ráðherra að beita sér fyrir því að felldar verði niður skuldir á móti á sama hátt? Við þingmenn Vinstri grænna höfum lagt fram frumvarp um að taka með nákvæmlega sama hætti verðbótakúfinn af verðtryggðum lánum með sama orðalagi og þessi vanhæfa ríkisstjórn gerði þegar hún tók af verðbótakúfinn gagnvart bændum og eins gagnvart öryrkjum og ellilífeyrisþegum. En það var ekki aðeins að það væri þessi beina kjaraskerðing á búvörusamningnum sem bændur urðu fyrir. Með einu pennastriki voru niðurgreiðslur á raforku á köldum svæðum skornar niður um 400 millj. kr. ef ég man rétt. Enn segi ég „ef ég man rétt“ því að ég hef ekki fjárlagafrumvarpið hér fyrir framan mig. (Gripið fram í.) Nei, það voru ekki 200, það voru örugglega 400 ef ekki 600 en það skiptir kannski ekki öllu máli. Aðalatriðið er að þetta munar bónda við utanverðan og austanverðan Eyjafjörð á sæmilegu sauðfjárbúi um 150 þús. kr. á ári. Hvað skyldi það nú vera, herra forseti? Það eru mánaðarlaun bóndans. Bara þessi ákvörðun vanhæfrar ríkisstjórnar um að skerða niðurgreiðslur á köldum svæðum kostar bóndann ein mánaðarlaun fyrir utan þá kjaraskerðingu sem ég nefndi áðan með svikunum á búvörusamningnum.

Hvernig skyldu svo bændur standa núna í dag? Í febrúar, eða mars líklega, eiga bændur að standa skil á virðisaukaskatti fyrir síðasta sex mánaða tímabil en það er aðaltekjutímabil bænda. Við vinstri græn höfum verið á fundum úti um allt land síðan kreppan skall á og bændur gera sér alveg grein fyrir því hver staðan er. Þeir fullyrða á þessum fundum að 70–80% af yngri bændum geti ekki staðið skil á þessum virðisaukaskatti, það sé útilokað mál. Virðisaukaskattsgreiðslan verði mörgum bóndanum jafnvel ofviða að ekki sé talað um það sem þarf að gera þar á eftir, þ.e. að kaupa áburð sem hefur hækkað alveg gríðarlega í verði frá því í fyrra. Ég vil spyrja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þessarar vanhæfu ríkisstjórnar: Hvað verður ef ekki verður borið á tún á Íslandi í sumar? Er það kannski allt í lagi? Eigum við bara að flytja inn kjöt? Er það þess vegna sem þetta frumvarp er komið hér inn frá þessari vanhæfu ríkisstjórn? Það er líklega skýringin. Þetta er eitthvert fráleitasta mál sem hér hefur verið borið upp á þinginu. Þetta er ávísun á salmonellusýkingar og kampýlóbaktersýkingar. Þetta er atlaga að fæðuöryggi og matvælavinnslu í landinu.

Ég var ekki alveg búin með bændurna vegna þess að það hefur orðið gríðarleg aukning á neyslu á íslenskum landbúnaðarafurðum eftir að kreppan skall á. Það var mesta dilkasala síðan 1993 í desember sl., 550 tonn af lambakjöti fóru úr verslunum og inn á borð landsmanna í desembermánuði. Það er auðvitað mjög mikilvægt við þær aðstæður sem við búum að auka og efla neyslu innlendra afurða og matvæla. Með því spörum við gjaldeyri, drögum úr innflutningi og aukum atvinnu í landinu en það er akkúrat það sem á að gera. Þetta frumvarp fer þvert gegn því öllu. Þar er stefnt að innflutningi á fæðu sem er ótryggari heilsufarslega en sú sem við höfum nú, sóar gjaldeyri, eykur innflutning og dregur úr atvinnu. Hér heggur nefnilega sá sem hlífa skyldi. Við þurfum á öllum vinnandi höndum að halda á Íslandi ef við ætlum að komast yfir hrunið og klúðrið sem þessi vanhæfa ríkisstjórn hefur staðið fyrir eftir það. Við þurfum ekki á því að halda að bæta í hóp atvinnulausra á landinu uppflosnuðum bændum eða starfsmönnum mjög öflugra matvælafyrirtækja hringinn í kringum landið.

Við þurfum heldur ekki á því að halda að loka matvælafyrirtækjum í landinu vegna óhollra, ódýrra, innfluttra — þess vegna rándýrra — matvæla heldur eigum við að stefna að því að fullvinna matvæli úr auðlindum lands og sjávar og gera Íslendinga og matvælaframleiðslu okkar eins sjálfbæra í þeim efnum og mögulegt er. Við eigum að framleiða matvöruna sem næst markaðnum og sjálfbær matvælaframleiðsla á að vera markmið okkar og stolt. Við getum líka verið stolt yfir matvælaframleiðslunni á Íslandi og vegna þess að ég hef verið að tala um hvernig þetta frumvarp kemur við bændur og hvernig ríkisstjórnin kemur fram við bændur ætla ég aðeins að segja að það skiptir okkur neytendur á höfuðborgarsvæðinu, þar sem um 190 þúsund manns búa, gríðarlega miklu máli að halda uppi byggð í landinu öllu og treysta íslenskan landbúnað. Það skiptir okkur miklu máli að hafa aðgang að góðum og hollum matvörum. Það hefur sýnt sig núna í kreppunni að neytendur eru tilbúnir til að gera það sem skynsamlegt er, það sem hagsýnar húsmæður gera, að kaupa innlent.

Mig langar til að vísa aðeins til álits Margrétar Guðnadóttur prófessors. Ég er ein af þeim heppnu sem hafa notið kennslu Margrétar Guðnadóttur í gegnum tíðina. Ég virði álit hennar sem fagmanns margfalt meira en einhverjar tilskipanir frá Evrópusambandinu þar sem misvitrir embættismenn sitja — og gera hvað? Horfa á málin út frá tálsýninni um frelsi markaðarins. Allir vita hvert sú tálsýn, sú nýfrjálshyggja, fjórfrelsið, markaðsvæðingin hefur leitt okkur. Nei, ég held mig frekar við álit Margrétar Guðnadóttur sem bendir á það í áliti sínu frá því í ágúst í fyrra um sama mál hversu mikilvægt það er að halda inni öllum þeim undanþágum sem við fengum við inngönguna í Evrópska efnahagssvæðið. Ég vil taka undir það sem hv. þm. Atli Gíslason sagði áðan: Það var aldrei látið á þetta reyna þannig að það bíður nýrrar ríkisstjórnar, vona ég, þegar þessi vanhæfa ríkisstjórn er farin frá.

Ég vil minna á að sú sérstaða sem undanþágur okkar byggðust á er óbreytt. Við erum eitt einangrað eyland úti í ballarhafi, það hefur ekkert breyst. Við erum enn með landnámskynin okkar, bæði í hefðbundnum landbúnaði, þ.e. bæði kúakynið og sauðfjárkynið. Reyndar skulum við ekki gleyma íslenska hestinum í því sambandi og öðrum dýrategundum svo sem líka. En það hefur tekist mjög vel að varðveita eiginleika þessara landnámskynja og mjög miklu hefur verið kostað til í þeim tilgangi að útrýma mæðiveiki, þurramæði, votamæði og visnu, eins og tókst vel að gera. Vita neytendur að bæði visna og mæði eru landlægar í sauðfjárkynjum og geitastofnum í sunnanverðri Evrópu? Vita neytendur að þetta frumvarp sem þessi vanhæfa ríkisstjórn leggur fyrir þingið heimilar innflutning á þessu kjöti frá þessum sýktu svæðum, hráu kjöti?

Riða er líka landlæg í Suður-Evrópu. Ég ætla að nefna aðeins kjúklingaræktina á þessum örfáu sekúndum sem ég á eftir. Ég vil mótmæla því sem hv. formaður landbúnaðarnefndar, Arnbjörg Sveinsdóttir, sagði áðan að það væri nóg ef sett væri upp verklagskerfi þannig að heimilað væri að skoða innflutning og leita að kampýlóbakter þar. Við eigum eitt besta kerfi til útrýmingar á kampýlóbaktersmiti í heiminum. Tekið er sýni af hverri einustu slátrun. Hún er upprunamerkt og ef það finnst vottur af kampýlóbakter í því er öll slátrunin fryst og komið í veg fyrir útbreiðslu sýkilsins. Þetta er ekki hægt gagnvart erlendum framleiðendum og það veit þingmaðurinn mætavel.

Mér þykir miður, herra forseti, að tími minn er búinn en hér er um stórmál að ræða, ekki síst fyrir neytendur.