136. löggjafarþing — 71. fundur,  22. jan. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

258. mál
[16:11]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Ég gerði að umtalsefni í fyrri ræðu minni álit Margrétar Guðnadóttur, sérfræðings í sýklafræðum, en vannst ekki tími til frekari tilvísana. Ég kom mjög stutt inn á það. Í þessu áliti segir hún að með frumvarpinu sé verið að fella niður mikilvægar undanþágur og að það sé meingallað og vanhugsað frumvarp. Hún geti ekki hugsað sér að það verði að lögum og það sé ávísun á stórslys í framtíðinni. Þetta mælir einn fremsti og virtasti fræði- og vísindamaður á sviði sýklafræði í heiminum. Hún segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Við búum hér á eyju fjarri löndum þar sem landlægir smitsjúkdómar eru miklu færri en á meginlöndum. Bústofnar okkar komu hingað á landnámsöld, hafa lítið blandast öðrum stofnum síðan og eru mjög viðkvæmir fyrir innfluttum smitsjúkdómum, enda ekkert ónæmi hér gegn sjúkdómum sem okkar búfé hefur aldrei haft nein kynni af. Gott dæmi er hrossasjúkdómur sem barst hingað í fyrsta skipti fyrir nokkrum árum og breiddist út nákvæmlega eins og inflúensufaraldur í fólki gerir ef nýtt, áður óþekkt afbrigði af veirunni kemur upp.

Á liðnum árum hafa innfluttir búfjársjúkdómar valdið miklum búsifjum, t.d. votamæði, þurramæði, visna, riða og garnaveiki. Votamæði, þurramæði og visnu var útrýmt með allsherjarniðurskurði á sauðfé á svæðinu norðan úr Þingeyjarsýslum austur í Skaftafellssýslur, sauðleysi á öllu þessu svæði í 1–3 ár eftir niðurskurðinn, síðan fjárskiptum með tilheyrandi afurðatapi bænda. Þannig hurfu þessir skæðu sjúkdómar úr landi. Langar einhvern í þá aftur hingað? Þeir finnast á öllu svæði Evrópusambandsins, berast með öndunarsmiti, mjólkursmiti og blóðsmiti og eru mjög algengir í Miðjarðarhafslöndum Evrópu ef litið er til einkennalítilla smitbera. Ég ætla rétt að vona að enginn fari að flytja hingað hrátt lambakjöt af þessum svæðum sem færi á grillin úti í íslenskri náttúru þar sem forvitnar sauðkindur kæmust í leifarnar.“

Svo mörg voru þau orð.

Hún tekur líka fram eða segir orðrétt í áliti sínu, með leyfi herra forseta:

„Verði þetta frumvarp að lögum verður dreift í verslanir landsins innfluttu hrámeti sem kannski hefur verið ófrosið á margra daga ferðalagi við mismunandi hitastig svo margs konar bakteríur, líka þeir stofnar salmonellu og saurgerla sem aldrei hafa fundist hér hafa fengið gott tækifæri til að fjölga sér. Ef slíkt gerist geta slíkir stofnar orðið skæðir skaðvaldar hér í mönnum og skepnum. Til eru margir salmonellustofnar. Sá skæðasti, salmonella typhi, taugaveikibakterían, var hér landlæg og olli mörgum dauðsföllum en var útrýmt á fyrstu áratugum síðustu aldar.“

Átta menn sig ekki á því hvaða stórhættu stefnir í, hvaða stórslys stefnir í? Hún talar líka um kúariðufaraldurinn í Bretlandi og kemst að þeirri niðurstöðu að ESB-reglurnar hafi verið gagnslausar í þeirri baráttu, meira að segja leitt til deilu milli Frakka og Englendinga út af því. Hún segir orðrétt, með leyfi herra forseta:

„Hvort sem litið er til hollustu matvæla eða sóttvarna er auðvitað eðlilegast að búvörur séu framleiddar sem næst neytandanum undir faglegu heilbrigðiseftirliti en ekki geðþótta markaðslögmálanna. Það er engin ástæða til þess að búvöruframleiðsla á Íslandi sé eyðilögð eins og nú stendur til. Sjálfbær matvælaframleiðsla á að vera markmið og stolt hverrar þjóðar og við eigum alls ekki að láta blaður óábyrgra manna komast upp með að eyðileggja hana.“

Hún rekur síðan í greinargerð sinni fjölda sjúkdóma sem hafa komið til landsins á 52 ára starfsferli hennar og nefnir þar að lokum alnæmisfaraldurinn. Lokaorð hennar eru þessi, með leyfi herra forseta:

„Að lokum vil ég minna á þá staðreynd að margar kynslóðir af góðu fólki lögðu á sig ómælda vinnu til að koma íslensku heilbrigðisástandi að matvælaeftirliti þangað sem það er núna. Það gerðist ekki á einum degi með samþykkt laga heldur með þrotlausri vinnu. Höldum henni áfram, göngum ekki aftur á bak þó að það sé miklu auðveldara að brjóta niður en byggja upp.“

Hefjum, herra forseti, viðræður að nýju við Evrópusambandið og gerum þeim grein fyrir staðreyndum þessa máls.