136. löggjafarþing — 72. fundur,  26. jan. 2009.

Tilkynning frá ríkisstjórninni.

[15:12]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þingheimur. Góðir landsmenn. Stjórnarslit eru nú staðreynd. Ríkisstjórn sem í raun hefur verið óstarfhæf um margra vikna ef ekki mánaða skeið hefur orðið að játa sig sigraða. Þessi stjórnarslit fara nokkuð harkalega fram. Því er ekki að leyna að maður er hugsi yfir þeim hörðu orðum sem forustumenn fráfarandi stjórnarflokka hafa haft hvor í annars garð og þá sérstaklega í garð samstarfsflokksins fyrrverandi.

Mönnum var það ljóst í dag, held ég, þegar við gengum inn í Skálann þar sem ekki bara allir íslenskir fjölmiðlamenn voru heldur tugir erlendra fréttamanna, að við vorum að senda út um heiminn þau skilaboð að ofan á efnahagskreppu og kerfishrun hefði nú bæst stjórnmálakreppa á Íslandi. Þetta eru ekki þau skilaboð sem við þurfum mest á að halda að senda, hvorki inn á við né út á við. Sú ábyrgð sem á okkur öllum hvílir snýr þó auðvitað fyrst og fremst að íslensku samfélagi. Þar er verkefnið. Og vegna þess hvílir nú meiri ábyrgð á herðum 63 þingmanna hér inni en kannski hefur verið um mjög langt árabil. Úr þessu verður að greiða.

Málin fara nú í stjórnskipulegan farveg og forseti lýðveldisins tekur við verkstjórn til að mynda landinu á sem allra skemmstum tíma á nýjan leik starfhæfa ríkisstjórn. Vinstri hreyfingin – grænt framboð og þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs eru tilbúin til slíkra viðræðna. Við erum tilbúin til að axla ábyrgð og leggja okkar af mörkum. Við útilokum engan kost fyrir fram og við göngum ekki til slíkra viðræðna með fyrirframskilyrði, allra síst um menn eða verkaskiptingu því að það er málefnið og verkefnið sem skiptir öllu hér og að því þurfa menn að hyggja.

Við, forustumenn stjórnarandstöðunnar, buðum upp á það í októbermánuði sl. þegar öllum mátti verða ljóst hvílíkir reginerfiðleikar voru að skella á landinu að hér yrði mynduð þjóðstjórn. Því boði var ekki tekið og það er ekki hægt annað en velta því fyrir sér hvort mál okkar væru ekki í betri stöðu nú ef forustumenn fráfarandi stjórnarflokka hefðu borið gæfu til þess að taka þá höndum saman við okkur í stjórnarandstöðunni og gera það besta úr málum. En ekki þýðir að tjá um það og þrátt fyrir þetta og þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi þá slegið á útrétta sáttarhönd okkar og reyndar margra fleiri í samfélaginu, til að mynda aðila vinnumarkaðarins og ýmissa annarra sem þá vildu samráð opnuðum við aftur á það að þjóðstjórn kynni að vera leið út úr þessum miklu erfiðleikum sem augljóslega voru orðnir á stjórnarheimilinu síðustu dagana og vikurnar. Það er þó mjög mikilvægt að menn hafi í huga að þótt nafnið sé fallegt dugar það ekki til. Þjóðstjórn verður þá að vera alvöruríkisstjórn, fær um að vinna þau verk sem þarf að vinna á næstu vikum og leiða svo landið inn í kosningar. Maður hlýtur að hafa vissar efasemdir eftir það sem á dagana hefur drifið og einkum í dag í þeim efnum.

Aðrir kostir eru að sjálfsögðu í stöðunni og hafa sumir verið nefndir og þá erum við sömuleiðis tilbúin til að skoða af fullum heilindum, reynist þeir vænlegri kostir og auðveldara að ná þeim fram. Tíminn er afar dýrmætur. Það verður að eyða þeirri óvissu sem nú er uppi og síðan að reyna að búa eins vel um hlutina og hægt er á því brúartímabili sem er þangað til þjóðin getur valið sér nýtt þing og ný ríkisstjórn með sterkan þingmeirihluta og þjóðina á bak við sig getur farið í það risavaxna verkefni sem það er að takast á við hlutina og hefja endurreisn Íslands. Það er ekkert minna sem okkar bíður en að endurmóta og endurreisa þetta samfélag úr rústum þeirrar hugmyndafræði og þeirrar ráðsmennsku sem ríkisstjórnir undangenginna margra ára hafa kallað yfir okkur. Nú þurfum við á öllum okkar kröftum og allri okkar visku að halda og við skulum vona fyrir allra okkar hönd og þjóðarinnar að úr þessu greiðist sem allra fyrst.