136. löggjafarþing — 73. fundur,  4. feb. 2009.

kjör nýs forseta þingsins.

[13:46]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Forsetinn sem hér hefur gegnt störfum frá því að þetta þing var kosið hefur gert það með miklum ágætum og komið ýmsum hagsmunamálum þingsins vel fram. Þegar fram kemur beiðni um að breyta til — miðað við það að forseti hefur verið kjörinn til fjögurra ára — felur það óhjákvæmilega í sér ákveðið vantraust á hann. Fram hjá því verður ekki litið.

Ég get ekki tekið þátt í að lýsa yfir vantrausti á sitjandi forseta sem mér finnst hafa gegnt störfum sínum með einstökum glæsibrag og komið fram fyrir hönd þingsins með þeim hætti að ég get ekki séð að það verði gert betur. Ég lýsi mig því algerlega andvígan því að við förum að með þessum hætti. Ég get ekki annað séð en að forseti hafi gætt þeirra reglna (Forseti hringir.) að fara fram með hlutleysi og hlutlægni í málum og ég geri ráð fyrir að hann geri það áfram og við eigum ekki að láta breytingar á (Forseti hringir.) ríkisstjórn breyta þessu mikilvæga embætti Alþingis.