136. löggjafarþing — 73. fundur,  4. feb. 2009.

kjör nýs forseta þingsins.

[13:55]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er skemmtilegt að í fyrsta sinn sem Sjálfstæðisflokkurinn er í stjórnarandstöðu í 18 ár, á fyrsta degi sínum í þeirri stöðu, eru allir 24 þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem hér eru staddir, nýir í stjórnarandstöðu. Og hvað ræða þeir þegar landsins gagni og nauðsynjum er svo komið sem raun ber vitni? Jú, um fundarstjórn forseta. Forseti góður. Það ræða þeir. [Frammíköll í þingsal.] Það er skemmtilegt vegna þess að sá sem hér stendur ræddi mikið um fundarstjórn forseta og fékk fyrir það afar hvassa gagnrýni frá hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur og hv. þm., fyrrverandi hæstv. ráðherra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur (Gripið fram í.) og fleirum sem töldu það ógn við þingræðið.

Um persónu forsetans sem hér situr er væntanlega allt gott að segja. Hann er þó ekki hæfari en svo að sjálfur Sjálfstæðisflokkurinn samdi hann aðeins inn í tvö ár þegar (Gripið fram í.) síðasta ríkisstjórn var mynduð og ætlaði að reka hinn ágæta þingmann og hæstv. forseta Sturlu Böðvarsson í vor, í maí árið 2009. Þá átti að skipta um. Það var virðingin sem Sjálfstæðisflokkurinn bar fyrir þessum manni sem nú er mærður og grátinn á forsetastóli vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn þarf að beita sér í stjórnarandstöðunni og koma af stað væringum á þinginu. (Gripið fram í.)