136. löggjafarþing — 73. fundur,  4. feb. 2009.

kjör nýs forseta þingsins.

[13:59]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. [Kliður í þingsal.] Tvennt vekur einkum athygli í þessari (Forseti hringir.) umræðu. Í fyrsta lagi það, sem áður hefur verið nefnt, að á fyrsta degi nýju minnihlutastjórnarinnar tryggir hún að í forsetastóli skuli sitja forseti sem er henni hliðhollur. Það er öll meiningin sem liggur að baki umræðunni um stöðu þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Hitt er auðvitað enn merkilegra og vekur meiri athygli að Framsókn stígur á sínum fyrsta degi á þessum 24 daga leiðangri sem er fram undan, skref í átt til minnihlutastjórnarinnar til að þóknast henni með þeim hætti að við erum í fullkominni óvissu um það sem hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir vék að hér áðan. Nefnilega hver vilji meiri hluta þingsins er. Hver verður vilji meiri hluta þingsins í öllum þeim málum sem eiga eftir að koma frá ríkisstjórninni? (Gripið fram í.)

Hér hefur fengist svar við því að Framsókn styður minni hlutann í þessu máli. Þetta er (Forseti hringir.) augljóslega á ábyrgð Framsóknar. En við munum á næstu 24 dögum komast að raun um hvað Framsókn vill (Forseti hringir.) í öllum hinum málunum en ótrúlegt er að óvissa skuli vera (Forseti hringir.) um það á þessum (Gripið fram í.) fyrstu dögum.