136. löggjafarþing — 73. fundur,  4. feb. 2009.

kjör nýs forseta þingsins.

[14:06]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Það er ansi merkilegt að fylgjast með málflutningi sjálfstæðismanna í þessari umræðu. Þeir keppast um að koma hér upp hver á fætur öðrum til að mæra sitjandi forseta, sinn eigin flokksmann. Flokkurinn sem er búinn að halda utan um forsetastól Alþingis í 18 ár þolir ekki að aðrir stjórnmálaflokkar komi þar nærri, þolir það ekki. Og þegar maður fylgist með þessum loftfimleikum sjálfstæðismanna í þessari umræðu, sem mér sýnist vera upphafið að miklum slag þar innan borðs — væntanlegir kandídatar til formanns Sjálfstæðisflokksins hafa komið í unnvörpum hér upp. Mér sýnist að sjálfstæðisþingmenn séu að deila innbyrðis og reyna að koma sjálfum sér á framfæri með ótrúlegum loftfimleikum í þessari umræðu. Það er einfaldlega þannig að hér ræður lýðræðið, meiri hlutinn ræður, og Sjálfstæðisflokkurinn verður að fara að koma sjálfum sér í skilning um það.