136. löggjafarþing — 73. fundur,  4. feb. 2009.

kjör nýs forseta þingsins.

[14:08]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Vegna ummæla hæstv. fjármálaráðherra vil ég að gefnu tilefni, af því að ég gleymdi því í ræðu minni áðan, óska nýrri ríkisstjórn alls velfarnaðar, ekki mun af veita og ekki skal standa á mér hvað það varðar að veita henni liðsinni til góðra mála. Það liggur fyrir að það eru mjög mörg og vandasöm mál sem þarf að vinna að og það verður að vinna hratt og ég lít þannig á að þingheimur verði að standa að því með sem allra besta móti.

Þá lít ég þannig til að það skipti máli að við höfum áfram í forsetastóli Alþingis mann sem hefur getið sér gott orð, hefur sýnt það í verkum sínum að hann metur með hlutlægum hætti hvar og hvernig eigi að standa að stjórn mála og þess vegna hvet ég eindregið til þess að við skiptum ekki um forseta þegar (Forseti hringir.) svo horfir til.