136. löggjafarþing — 73. fundur,  4. feb. 2009.

kjör nýs forseta þingsins.

[14:10]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Okkur var öllum ljóst að hæstv. fjármálaráðherra varð mikið um að fá ekki hamingjuóskir þannig að ég skal reyna að hjálpa honum með það og óska nýrri ríkisstjórn velfarnaðar. Og ég tek undir með öðrum þingmönnum að ekki veitir af. En tvennt stendur upp úr: Annars vegar það að allt það sem Vinstri grænir hafa sagt um sjálfstæði þingsins, um þessar löngu ræður sem þeir hafa farið með um að skynsamlegt væri, til að ná góðri stöðu og sátt, að þingforseti væri úr röðum stjórnarandstöðunnar, þetta er allt innantómt hjal. Í ofanálag kom það skýrt fram, takið eftir orðalaginu, að það ætti að skipta um forseta til að keyra mál í gegn. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Ég heyri að stjórnarþingmenn taka hressilega undir með þessu. Erum við ekki búnir að taka þessa umræðu nokkrum sinnum um að það væri kannski ekki alveg sem þannig ætti að vinna? (Forseti hringir.) En það breytist kannski núna eins og allt annað hjá þessum þingmönnum.