136. löggjafarþing — 73. fundur,  4. feb. 2009.

kosning forseta skv. 1. mgr. 3. gr. þingskapa.

[14:23]
Horfa

Forseti (Guðbjartur Hannesson):

Hv. alþingismenn. Ég þakka það traust sem mér er sýnt með því að vera kosinn forseti Alþingis. Ég met það mikils og mun leggja mig allan fram við að rísa undir ábyrgðinni sem fylgir svo mikilvægu embætti.

Ég þakka fráfarandi forseta góð og farsæl störf hans við stjórn þingsins. Hann hefur lagt sitt að mörkum, oft við erfiðar aðstæður, til að efla Alþingi, gera umræðuna skilvirkari og ekki hvað síst með því að styrkja stöðu stjórnarandstöðunnar og hlut landsbyggðarþingmanna.

Ný ríkisstjórn hefur tekið við völdum. Í fyrsta skipti í sögu lýðveldisins er kona forsætisráðherra og kynjaskipting jöfn. Ég óska ríkisstjórninni velfarnaðar í störfum og vona að samstarf hennar og Alþingis verði gott og árangursríkt. Ég óska nýjum hæstv. ráðherrum sérstaklega til hamingju með ný verkefni um leið og ég þakka þeim sem úr ríkisstjórn hverfa fyrir störf þeirra.

Hin nýja ríkisstjórn er minnihlutastjórn og styðst aðeins við minni hluta þingmanna. Jafnframt er sú nýjung í skipan þessarar ríkisstjórnar að tveir ráðherrar eru ekki kjörnir alþingismenn en munu taka þátt í störfum þingsins án þess að hafa atkvæðisrétt. Allt mun þetta hafa áhrif á störf þingsins þá tvo mánuði sem þingið starfar fram að boðuðum alþingiskosningum.

Alþingi, alþingismenn, starfsmenn þingsins og þjóðin öll hafa gengið í gegnum erfiða tíma. Við höfum fylgst með miklum mótmælum og hér við Alþingishúsið ríkti umsátursástand í nokkra daga. Umræða undanfarinna vikna hefur endurspeglað vaxandi vantraust á Alþingi og alþingismönnum. Krafa er um aukið lýðræði og aukið sjálfstæði og aukin áhrif Alþingis, skarpari skil á milli löggjafar- og framkvæmdarvalds, endurnýjað umboð Alþingis, betri upplýsingar um gang mála, aukið gagnsæi og réttlæti í allri stjórnsýslu. Við þessu ákalli þjóðarinnar verður að bregðast og boðuð lagasetning um stjórnlagaþing er mikilvægt skref í endurskoðun á lýðræðiskerfi okkar í heild.

Minnihlutastjórn reynir enn frekar en áður á samstarf og samninga milli þingflokka um stjórn þingsins. Þetta getur eflt stöðu Alþingis þar sem sátta verður leitað og meiri hluta náð fram í hverju og einu máli. En þá og því aðeins ef þingmenn láta störf sín mótast af vilja til að leysa mál og leita bestu lausna hverju sinni. Minnihlutastjórn getur þannig haft í för með sér að staða Alþingis styrkist. Það er í anda kröfu samfélagsins um sterkara Alþingi og aukið lýðræði. Krafa þjóðarinnar er að við náum árangri í þeim erfiða efnahagsvanda sem við glímum við.

Ég veit að hv. þingmenn úr öllum stjórnmálaflokkum bera velferð lands og þjóðar fyrir brjósti. Hv. þingmenn eiga það sameiginlega markmið að ná árangri í björgunaraðgerðum í þágu heimila og fyrirtækja og ég treysti á að samstaða náist um að koma þingmálum áfram hratt og örugglega, nýta tímann vel, tryggja skilvirkt starf í nefndum og marka málefnalega umræðu á Alþingi. Þannig aukum við tiltrú og traust á Alþingi.

Alþingi Íslendinga má ekki á þessum erfiðu tímum verða vettvangur kosningabaráttu einstakra þingmanna eða stjórnmálaflokka heldur á umræðan að markast af lausnum á þeim brýnu verkefnum sem bíða og þurfa úrlausnar við fyrir komandi kosningar.

Ég endurtek þakkir mínar til þingheims fyrir það traust að fela mér þetta embætti. Ég ítreka þá von mína að ég eigi gott samstarf við alla hv. þingmenn og starfsfólk þingsins um árangursríkt og afkastamikið þing.