136. löggjafarþing — 73. fundur,  4. feb. 2009.

umræða um stefnu ríkisstjórnarinnar.

[14:36]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ítreka þær hamingjuóskir sem hafa verið fluttar til forsetans vegna þessa virðulega embættis og hef allt traust á að hann muni sinna því vel.

Jafnframt vil ég færa hæstv. forsætisráðherra mínar hjartanlegustu árnaðaróskir með embættistökuna og óska henni velfarnaðar í starfi. Ég get þó ekki annað en nefnt að ég hef orðið fyrir vonbrigðum með að skýrslunni um efnahagsmál og stöðu þjóðmála, sem verður rædd í kvöld, skuli enn ekki hafa verið dreift hér í þingsölum. (Gripið fram í.) Ég veit að hún verður flutt munnlega en að sjálfsögðu hefði verið mjög til bóta fyrir umræðuna í þinginu ef gögnum hefði verið dreift fyrir þessa mikilvægu umræðu, sem verður sjónvarpað og ég er sannfærður um að margir munu vilja fylgjast með. Þótt hér hafi verið tekist á um ýmislegt í þingsköpum og annað slíkt í dag fer mikilvæg umræða fram í þinginu í kvöld og ég held að það hefði verið merki um öflugt verklag og vilja til að vinna vel með þinginu ef skýrslunni hefði verið dreift í þinginu þannig að við hefðum getað kynnt okkur hana og undirbúið þar með betur umræðurnar í kvöld svo þær yrðu gagnlegri bæði fyrir þingið og þjóðina.