136. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2009.

stefna ríkisstjórnarinnar, skýrsla forsrh.

[20:50]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Mikið hefur verið fjallað í ræðum og rituðu máli sem og á mörgum fjölmennum mótmælafundum í haust og vetur um að bæta yrði lýðræðisskipulag og stjórnsýsluna. Undir þá kröfu almennings tekur sá sem hér stendur og sú stefnumótun er einnig í stefnu Frjálslynda flokksins.

Við höfum flutt tillögur um að landið verði eitt kjördæmi og jafnframt að kosið yrði til Alþingis bæði af flokkslistum og óröðuðum landslista. Í stjórnarskrárnefnd undir forustu Jóns Kristjánssonar, fyrrverandi þingmanns, lögðu þingmenn Frjálslynda flokksins til að 15% kosningabærra manna gætu krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök mál.

Þjóðin hefur aldrei fengið að kjósa um óréttlátt kvótabraskskerfi þótt fólkið í landinu hafni kvótakerfinu með miklum meiri hluta í hverri skoðanakönnuninni og á mótmælafundum síðustu mánaða svo dæmi sé tekið. Við lögðum einnig til í stjórnarskrárnefnd að tveir fimmtu alþingismanna gætu ávallt knúið fram þjóðaratkvæði um einstök mál. Við erum sammála því að ávallt skuli kosið beint um breytingar á stjórnarskrá og styðjum þá áherslu í verklýsingu nýrrar ríkisstjórnar sem jafnframt er óskað velferðar í störfum sínum á mjög erfiðum tímum.

Frjálslyndi flokkurinn vill að ráðning hæstaréttardómara verði samþykkt á Alþingi, jafnvel með auknum meiri hluta, og sérstaklega viljum við að skýrt verði markað í stjórnarskrá að auðlindir séu þjóðareign og ríkið hafi aðeins heimild til þess að ráðstafa tímabundnum nýtingar- eða leigurétti. Stjórnlagaþing hefur þarna ærin verkefni.

Ákvörðun um frjálst framsal kvótans frá og með 1991 var hörmuleg ákvörðun og mikið óhæfuverk. Sú áhersla á valdatíma Þorsteins Pálssonar sem sjávarútvegsráðherra 1991–1999 var vegferð upphafs skuldaaukningar og fjárglæfra. Fjárstreymi út úr sjávarútveginum var þar með sett á fulla ferð.

Fjármunir til nýrra viðskipta voru að miklu leyti sóttir með veðsetningu kvótans og sölu hans. Skuldir sjávarútvegsins jukust um 100 milljarða á næstu 10 árum. Kvótinn var framseldur frá byggðarlögunum og stéttarfélög og sveitarfélög gátu ekki varið sín byggðasvæði. Það var afnumið. Takmörkuðum réttindum fólks í sjávarbyggðum til verndar eignarrétti var eiginlega hent. Óheft frjálshyggjan í Sjálfstæðisflokknum réð virkilega þeirri ógæfuför. Þannig varð til ný verðmyndun á kvóta sem stærri útgerðir og bankar tóku þátt í og stjórnuðu.

Margir hafa á undanförnum vikum bankahruns á Íslandi bent á þessa tilbúnu fjármagnsframleiðslu sem varð til með veðsetningu á óveiddum fiski í sjó og frjálsu framsali kvótans sem fyrstu orsök þess lánsfjárflóðs sem varð fjármálakerfi okkar síðar að falli.

Að taka lán erlendis og auka veðhæfni eigna varð sérsvið bankastjórnenda og viðskiptajöfra.

Það er hins vegar ávallt þjóðin, fólkið í landinu, sem verður fyrir því að taka á sig fallið, þjóðin þarf að þola byrðarnar.

Það er mikið vandaverk að takast nú á við vanda efnahagslífsins í landinu. Vaxtalækkanir verða að koma til sem allra fyrst. Fyrirtæki og heimili fá ekki risið undir þessum ofurvöxtum. Fjármálakerfi landsins þarf að ná virkni og eðlilegri lánastarfsemi fyrir atvinnulífið. Það þarf að vinna hratt og skipulega að því að afstýra gjaldþrotahrinu vegna vaxandi skulda heimilanna í landinu.

Ég minni á að Frjálslyndi flokkurinn hefur margoft lagt fram tillögur á Alþingi um virkar aðgerðir til afnáms verðtryggingar á lánsfé. Við núverandi aðstæður þarf að frysta verðbætur til næstu mánaða, vel fram á sumar svo nýrri ríkisstjórn gefist ráðrúm til framhaldsaðgerða vegna skuldaþenslu heimilanna. Þar á sér nú stað eignabruni sem verður með einhverjum ráðum að stöðva.

Í þinginu liggur nú fyrir frumvarp okkar frjálslyndra um Seðlabanka Íslands þar sem lögð er til nýskipan í stjórn Seðlabankans, að bankastjóri verði einn og bankaráð faglega ráðið með tilliti til menntunar og þekkingar á peninga- og efnahagsmálum. Það mál okkar frjálslyndra hefur ekki enn fengist rætt en hefði þó verið fullt tilefni til á haustmánuðum. Nú fæst það vonandi rætt því að nú boðar ríkisstjórnin sömu áherslur í verkefnalista sínum.

Ég vil einnig minna á að enn þá hefur seðlabankastjórinn eða fyrrum stjórnvöld ekki upplýst þjóðina um raunverulegt efni þeirra funda sem hófust fyrir tæpu ári þar sem Davíð Oddsson, Geir Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fjölluðu um fjármálavoðann sem var varað við. Upplýsingagjöf til þjóðarinnar er mjög ábótavant og úr því þarf verulega að bæta.

Í allt haust vantaði einmitt skýrar upplýsingar um í hvaða skuldafeni þjóðin væri að lenda vegna falls stóru bankanna og þess hvað Seðlabankinn þurfti í auknu fjármagni eða gjaldeyri. Við sáum í fjárlögum gert ráð fyrir vaxtagreiðslum á þessu ári upp á tæpa 90 milljarða króna. Og enn er Icesave-deilan óleyst. Telur virkilega einhver í þessum sal að við ráðum við þær byrðar að óbreyttum tekjum þjóðfélagsins? Það er bráðnauðsynlegt að setja skýrt fram hvaða framtíð bíður okkar í skuldum, vöxtum og afborgunum til næstu ára.

Ég hef talið að vaxtabyrði okkar megi ekki fara yfir 100 milljarða kr. á hverju ári eins og tekjur eru nú. Þess vegna verður að auka tekjur þjóðarinnar með öllum tiltækum ráðum. Þar mega tilfinningar ekki hefta atvinnu. Atvinnuleysið er algjört böl og má ekki vaxa mánuðum saman. Allar fjölskyldur í landinu þekkja nú orðið til fólks sem er á þeim lista, 13.000 manns sem orðnir eru atvinnulausir. Allir þekkja orðið til slíkra dæma.

Virðulegi forseti. Nú hafa hvalveiðar verið leyfðar til næstu fimm ára. Sú ákvörðun stóð lengi í Einari K. Guðfinnssyni, hæstv. sjávarútvegsráðherra. (Gripið fram í: Fyrrverandi.) Fyrrverandi. Að lokum fékk hann þó kjarkinn þegar starfi hans sem sjávarútvegsráðherra var að ljúka. Betra seint en aldrei. Frjálslyndi flokkurinn hefur alla tíð haft það á stefnuskrá sinni að hér yrðu stundaðar hvalveiðar í sátt við eðlilega nýtingu náttúrunnar. Það vita allir sem um sjó sigla við landið reglulega og einnig þeir ekki síst sem hafa fiskveiðar að atvinnu allan ársins hring hversu mikil aukning hefur orðið á hval á Íslandsmiðum síðustu áratugi. Rannsóknir á hrefnu sýna skýrt að sú tegund er enn meiri afræningi á lífríki sjávar, þorski og ýsu, en jafnvel sjómennirnir sjálfir gerðu ráð fyrir. Hins vegar verður að segja eins og er, hæstv. forseti, að það vantar slíkar rannsóknir á stórhvelunum. Vonandi tekst það nú þegar veiðarnar hefjast.

Að ætla að snúa frá þessari eðlilegu og sjálfsögðu nýtingu náttúruauðlinda sem hvalveiðar eru væri mikið óhæfu- og skemmdarverk. Því verður ekki trúað að óreyndu að Steingrímur J. Sigfússon, núverandi sjávarútvegsráðherra, muni draga til baka þá ákvörðun um stórauknar hvalveiðar í atvinnuskyni hér við land sem tekin hefur verið.

Við þurfum nú að auka atvinnu í landinu með öllum tiltækum ráðum og vinna af alefli gegn vaxandi atvinnuleysi. Hvalveiðar falla vel að þeim áherslum sem nú verða að vera forgangsmál í íslensku þjóðfélagi.

Ný ríkisstjórn verður að víkja tilfinningum til hliðar og leggja kalt mat á öll þau verk sem geta aukið atvinnu fólks í landinu eins og nú árar í þeim efnum. Hvalveiðar eru útflutningsgrein. Þær geta fært okkur verðmætan gjaldeyri og orðið lyftistöng fyrir atvinnulíf á landsbyggðinni. Veiðar á hvölum geta vel farið saman við hvalaskoðun og aðrar greinar ferðamennsku. Við getum einnig aukið komu ferðamanna til landsins, m.a. með frekari kynningu og samvinnu við ferðaþjónustuaðila í þeim efnum.

Þetta gildir einnig um aðrar greinar sjávarútvegsins, þar má auka úrvinnslu. Við verðum að leita leiða til að auka áframvinnslu sjávarafurða og að sjálfsögðu þurfum við að auka veiðiheimildir í þorski enn frekar en gert hefur verið og einnig má líta til þess í öðrum bolfiskstegundum.

Þá veiðiaukningu á að sækja með strandveiðiflotanum sem skapar umhverfisvæn störf. Einnig er óskiljanlegt að ekki skuli hafa verið aukið mjög verulega við veiðar á íslensku sumargotssíldinni.

Til viðbótar er það skýlaus krafa að mannréttindi verði virt við núverandi úthlutun aflaheimilda. Íslenskir borgarar eiga skýlausan rétt á að nýta auðlindir í eigin landi án þess að þurfa að greiða blóðug afgjöld til forréttindahópa sem hafa makað krókinn um áratugaskeið í skjóli stjórnvalda. Strax ber að hefja vinnu við að innkalla aflaheimildir til ríkisins, og höfum við í Frjálslynda flokknum lagt fram tillögur þess efnis hér á Alþingi. Þjóðin á að eiga óveiddan fiskinn í sjónum. Við munum ekki komast í gegnum þá erfiðleika sem fram undan eru á niðurskurðinum einum og við munum heldur ekki komast það með því að fara þá leið sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir talaði um hér áðan, að auka eingöngu skattana. Allar leiðir þurfa til að koma, auknar tekjur, aukin atvinna, aðhald og skynsamleg skattstefna.