136. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2009.

stefna ríkisstjórnarinnar, skýrsla forsrh.

[21:15]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég er stolt af því að standa í ræðustól Alþingis í dag. Ég er stolt af því að hér hefur verið stofnað til ríkisstjórnar sem markar ótrúlega stór tímamót í íslenskum stjórnmálum og þjóðlífi og getur ef vel tekst til orðið undanfari nýrra tíma, eins og hæstv. forsætisráðherra sagði áðan.

Fyrst vil ég nefna að með þessari ríkisstjórn er stigið stórt skref í réttindabaráttu kvenna. Í fyrsta sinn á Íslandi er kona á forsætisráðherrastól og ríkisstjórn skipuð jafnmörgum konum og körlum. Hér hafa báðir ríkisstjórnarflokkarnir fylgt yfirlýstri stefnu sinni um að sjónarmið og reynsla beggja kynja skuli vera við borðið þar sem ákvarðanir eru teknar. Það er skýrt leiðarmerki á nýrri öld og fyrir nýtt Ísland. Herra forseti, ég er stolt af því.

Í þessari ríkisstjórn sitja einnig, í fyrsta sinn í meira en 60 ár, tveir ráðherrar sem ekki eiga sæti á Alþingi. Á stóla viðskiptaráðherra og dómsmálaráðherra hafa verið valin karl og kona sem bæði njóta víðtæks trausts, ekki aðeins hjá þingmönnum stjórnarflokkanna heldur í samfélaginu öllu. Það er gríðarlega mikilvægt í ljósi þeirra miklu verkefna sem bíða þeirra í ráðuneytum sínum.

Ríkisstjórnin sem nú hefur tekið við er líka einstök að því leyti að hún er minnihlutastjórn tveggja flokka og þriðji flokkurinn ver hana vantrausti. Hér er einnig brotið í blað á þingi sem hingað til hefur um of verið bundið á klafa ráðherraræðis, löggjafarvalds sem hefur í flestu lotið boðvaldi framkvæmdarvaldsins og sætt miklu ámæli fyrir vikið.

Loks er ríkisstjórnin einstök að því leyti að hún ætlar sér stuttan starfstíma, ríflega 80 daga, og boðar til kosninga eins fljótt og auðið er í samræmi við kröfur þjóðarinnar. Ríkisstjórnin hefur sett sér skýra verkefnaskrá og er þegar farin að taka til hendi svo eftir er tekið.

Ég ætla mér ekki að fjalla mikið um aðdraganda stjórnarmyndunarinnar. Það hafa aðrir gert. En stutta útgáfan er einfaldlega sú að langlundargeð þjóðarinnar og meiri hluta þingmanna þraut. Sjálfstæðisflokkurinn daufheyrðist mánuðum saman við vaxandi kröfum þjóðarinnar um breytingar bæði í stjórnkerfinu og bankakerfinu og kröfurnar urðu háværari með hverjum deginum sem leið. En sömu dagar færðu mönnum sífellt nýjar fregnir af áframhaldandi spillingu og auðsöfnun hinna útvöldu á meðan þúsundir misstu vinnuna og jafnvel íbúðarhúsnæði sitt líka.

Fáum blandast hugur um það lengur að íslenska fjármálakerfið var gríðarlega flókið. Það var rotið og spillt og beinlínis svo um hnúta búið að auðvelt væri að flytja fjármuni í skattaskjól út og suður. Ég fagna því sérstaklega að ný ríkisstjórn ætlar að kanna möguleika á því að kyrrsetja eignir til þess að lágmarka mögulegan skaða skattborgara og ríkissjóðs af bankahruninu. Sjálf flutti ég ásamt þremur öðrum þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs frumvarp þess efnis strax í haust, þegar við lögðum til breytingar á neyðarlögunum í sama tilgangi. Ég hef fundið víðtækan stuðning við þessa sanngjörnu kröfu í samfélaginu og treysti því að ríkisstjórnin beiti öllum tiltækum ráðum til að eignum sem kunna að verða andlag skaðabóta vegna bankahrunsins verði ekki komið undan, enda þótt rannsókn á aðdraganda hrunsins hafi dregist úr hömlu.

Sagt hefur verið, herra forseti, að kyrrsetning eigna kunni að brjóta gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar um eignarrétt. Ég hvet þá sem þannig tala að taka til varna þegar eignarrétturinn er nú hrifsaður af íbúðareigendum í hundraðatali. Vegna hvers? Vegna vaxandi skulda sem rekja má beint til bankahrunsins. Eða er sá eignarréttur minna virði en eignarréttur auðmanna samkvæmt stjórnarskrá? Ég held ekki.

Ég sagðist vera stolt af því að vera íslenskur stjórnmálamaður á Alþingi í dag. Það er vor í lofti og nýrrar ríkisstjórnar bíður á stuttum tíma mikið verk. Auðlindir okkar í sjó og á landi fara ekki langt. En mannauðinn verðum við að halda í með öllum tiltækum ráðum. Við þær aðstæður sem eru uppi í íslensku þjóðfélagi í dag, þegar 13.000 eða 14.000 manns eru á atvinnuleysisskrá, er erfitt að áfellast ungt fólk sem flyst úr landi til að leita sér að betra lífi.

Ég hvet fólk samt til þess að þreyja þorrann og góuna og leggjast á árar með okkur að mótun nýs Íslands því að nú er komið tækifæri. Ríkisstjórnin er þegar byrjuð að taka til hendinni. Ég fagna sérstaklega ákvörðun heilbrigðisráðherra um að taka aftur spítalaskattinn illræmda sem lagður var á um síðustu áramót. Ég fagna líka ákvörðun menntamálaráðherra um nýja stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna og vona sannarlega að þeirri stjórn auðnist að vinna betur með námsmönnum og námsmannahreyfingunni en þeirri sem áður sat.

Ég vil líka sérstaklega fagna ákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að láta kanna lagalegan grundvöll þess að ráðherra í starfsstjórn í ríkisstjórn sem hefur beðist lausnar taki á síðustu metrum starfans umdeildar ákvarðanir sem binda ríkisstjórnir til frambúðar. Þetta er nokkuð sem vart getur verið hafið yfir gagnrýni eða samrýmst góðri stjórnsýslu hvað svo sem mönnum kann að finnast um efnislegt innihald ákvörðunarinnar.

Herra forseti. Ég er stolt af því að flokkur minn Vinstri hreyfingin – grænt framboð fær nú tækifæri til þess að setja mark sitt á stjórn landsins við þessar erfiðu aðstæður. Ég hef áður sagt að því erfiðara sem ástandið verður í þessu landi þeim mun mikilvægara er að vinstri græn komi þar að með stefnu sína sem byggist á hugsjónum um félagsleg gildi, jöfnuð og réttlæti og hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar.

Sonur minn og um 70.000 aðrir Íslendingar yngri en 18 ára hafa nú lifað heila þrjá daga án Sjálfstæðisflokksins í Stjórnarráðinu og hafa fengið fyrirheit um að 80 slíkir muni fylgja í kjölfarið. Ég vona svo sannarlega að þeir verði miklu fleiri. [Hlátur í þingsal.]