136. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2009.

stefna ríkisstjórnarinnar, skýrsla forsrh.

[21:22]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Fyrir tveimur árum vék Framsóknarflokkurinn úr ríkisstjórn eftir tólf ára setu. Honum hafði tekist furðu vel að halda sjó í sambúðinni við Sjálfstæðisflokkinn þótt mörgum þætti hjónasvipur þessara tveggja flokka fullmikill á síðustu metrunum. Við náðum þó að standa vörð um velferðina, sem almenningur hafði byggt upp á síðustu áratugum með blóði, svita og tárum. Má þar nefna Íbúðalánasjóð, heilbrigðiskerfið og félagslega kerfið sem við vörðum með kjafti og klóm þar til yfir lauk.

En enginn er fullkominn. Við framsóknarmenn gerðum mistök bæði í eigin verkum en ekki síst þegar kom að því að hemja frjálshyggjuskepnuna sem ólmaðist í túni Valhallarbóndans. Trúarstríð sjálfstæðismanna gegn hvers kyns eftirliti með hinum frjálsa markaði er það sem reið íslenskum efnahag nærri því að fullu.

Vissulega berum við framsóknarmenn okkar sök og okkar ábyrgð. Þá sök höfum við viðurkennt og þá ábyrgð höfum við axlað. Hjá okkur er uppgjörinu að ljúka og endurnýjun og uppbygging er hafin. Íslenskt samfélag þarf að ganga í gegnum sams konar ferli. Við þurfum að gera upp fortíðina. Við þurfum endurnýjun og í kjölfarið þarf að byggja upp að nýju. Fráfarandi ríkisstjórn gerði ekkert af þessu. Í stjórnartíð hennar var skollaeyrum skellt við viðvörunum sérfræðinga, embættismanna og stjórnarandstöðu. Guðni Ágústsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, varaði ítrekað við þenslufjárlögum og yfirvofandi hættum í fjármálakerfinu en óheft gandreið frjálshyggjunnar hélt áfram. Afleiðingin er sorglegri en tárum taki.

En hafi lítið verið gert til að forðast hrun var enn minna gert til að bregðast við því. Hér hefur ekkert uppgjör farið fram. Hér hefur engin endurnýjun átt sér stað. Hér hefur engin uppbygging hafist fyrr en nú. Fólkið í landinu sagði hingað og ekki lengra. Eins og grasrótin í Framsókn krafðist hún uppgjörs, endurnýjunar og uppbyggingar. Með nýjum formanni Framsóknar voru innleiddir nýir tíma í íslensk stjórnmál. Tilboð um stuðning við minnihlutastjórn Vinstri grænna og Samfylkingar hefur losað þjóðina úr spennitreyju frjálshyggjunnar. Þetta tilboð opnaði Samfylkingunni leið úr kæfandi faðmlagi Sjálfstæðisflokksins sem hún nýtti sér til heilla fyrir þing og þjóð.

En þetta tilboð er enginn óútfylltur tékki. Því fylgdu frá upphafi skýr skilyrði. Kosningar í síðasta lagi 25. apríl, stjórnlagaþing til að semja nýja stjórnarskrá lýðveldisins og raunhæfar leiðir til að styðja við heimili og fyrirtæki í landinu. Með þessum einföldu og skýru skilyrðum töldum við framsóknarmenn okkur koma til móts við vilja fólksins í landinu. Þess fólks sem með búsáhaldabyltingu sinni lagði grunninn að hinu nýja Íslandi. Uppgjörið er hafið. Endurnýjunin er hafin. Uppbyggingin er hafin.

Við framsóknarmenn ætlum ekki að bera ábyrgð á ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar en við ætlum að styðja hana til allra góðra verka. Mikilvægast er að brjótast út úr þeim vítahring ákvörðunarfælni og aðgerðaleysis sem einkenndi síðustu ríkisstjórn. Það virðist hin nýja stjórn ætla að gera. En þær leiðir sem farnar verða við uppbygginguna eru ekki síður mikilvægar. Við Íslendingar höfum löngum verið haldnir óbilandi bjartsýni og trú á okkur sjálfa. Endalaus vinnusemi og mottóið „þetta reddast“ hefur fleytt okkur lengra en nokkur hefði trúað og sumir segja að það mottó hafi kannski fleytt okkur fram af brúninni.

Við megum ekki glata trúnni á okkur sjálf. Endurreisnin mun byggja á hinni meðfæddu bjartsýni okkar Íslendinga og trúnni á hið nýja Ísland. En við þurfum líka að hafa trú á þeim leiðum sem stjórnvöld marka út úr myrkrinu. Við þurfum að treysta því að þær leiðir sem valdar eru komi okkur á braut velmegunar á ný.

Framsóknarmenn hafa lagt fram skýrar tillögur um hvert skal stefna. Við vonum að þær fái hljómgrunn hjá núverandi ríkisstjórn enda sýnist okkur sú stefna sem hér hefur verið mörkuð að mörgu leyti samhljóma okkar. Við viljum lækka vexti til að bjarga heimilum og fyrirtækjum í landinu. Við viljum ráðast gegn atvinnuleysi með auknum framkvæmdum ríkis og einkaaðila. Við viljum efla eftirlitsstofnanir og endurskoða peningamálastefnuna til að hrun geti aldrei aftur átt sér stað. Síðast en ekki síst viljum við brjótast út úr þeim þankagangi sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið fyrir í íslenskum stjórnmálum þar sem flokkurinn gengur framar öllu.

Nýr formaður Framsóknar var spurður af þingfréttamanni Ríkisútvarpsins hvað Framsókn fengi í staðinn fyrir stuðning við stjórnina. Henni var sýnilega brugðið þegar formaðurinn svaraði. Vonandi betra Ísland. Hin nýja Framsókn fer ekki fram á skrauthúfur, bitlinga eða vegtyllur. Í hinu nýja Íslandi verðum við að setja þjóðina í fyrsta sæti. Smákóngaslagir um stóla og embætti verða að heyra sögunni til.

Umræðan sem efnt var til á Alþingi í dag er sorglegt dæmi um hið gamla Ísland Sjálfstæðisflokksins. Íslands sem vonandi er liðið undir lok. Þjóðin vill nýtt Ísland. Hið nýja Ísland munum við byggja á samvinnu, samstöðu og sanngirni.