136. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2009.

stefna ríkisstjórnarinnar, skýrsla forsrh.

[21:34]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég óska Sjálfstæðisflokknum hjartanlega til hamingju með að vera kominn í stjórnarandstöðu og vona að hann megi vera þar vel og lengi. Hv. þingmanni Einar Guðfinnssyni verð ég hins vegar að segja að það er nokkur byrjendabragur á því að ásaka nýja ríkisstjórn vinstri manna um að hún kunni ekki með peninga að fara og það verði tómur glundroði. Það er satt að segja, virðulegir sjálfstæðismenn, fullstutt frá bankahruninu og borgarabyltingunni til þess að Sjálfstæðisflokkurinn geti staðið hér í ræðustólnum og bent ásakandi á aðra um glundroða og vonda fjármálastjórn.

Við í Samfylkingunni höfum ekki verið gagnrýnd fyrir það að hafa slitið stjórnarsamstarfinu heldur fyrir hitt að hafa haldið því áfram allt of lengi því að ekkert lífsmark var á löngum köflum að sjá með samstarfsflokki okkar ef undan er skilinn hræðsluskjálftinn sem um hann fór þegar nefnt var nafn Davíðs Oddssonar.

Það fer ekki vel á því að við séum að kýtast hér því að við sem höfum stjórnað landinu síðastliðin ár, við sem stóðum vaktina 6. október sl., hljótum auðvitað fyrst og síðast að biðja þjóðina afsökunar vegna þess að það var á okkar vakt sem kerfið hrundi. Ekki að biðjast afsökunar „ef“ við gerðum eitthvað rangt heldur vegna þess að við brugðumst. Við í Samfylkingunni öxlum þá ábyrgð okkar með því að binda endi á þetta kjörtímabil gegn vilja Sjálfstæðisflokksins og efna, í samstarfi við framsókn og VG, til kosninga nú í vor þar sem kjósendur fá að úrskurða um fortíð og framtíð.

Við öxlum líka ábyrgð okkar með því að taka þá forustu fyrir landstjórninni sem engin var og hrinda í framkvæmd í samvinnu við Vinstri hreyfinguna – grænt framboð og Framsóknarflokkinn þeim brýnustu aðgerðum sem aldrei var hægt að aka Sjálfstæðisflokknum í. Ég vona að þessi ríkisstjórn sitji vel og lengi en í þessari lotu eru það aðeins 80 dagar sem hún hefur og við getum ekki haft væntingar um að hún geti gert allt fyrir alla. Hér eru líka gríðarlegir erfiðleikar fram undan í mörg ár og við skulum horfast í augu við það. En við skulum líka muna að sú kreppa sem við eigum við er ekki mikið dýpri en sú sem Færeyingar tókust á við og þeir sigruðust á henni. Það getum við líka.

Við skulum muna að Færeyingar bjuggu ekki að eigin örsmáum fljótandi gjaldmiðli og þeir áttu dyggan stuðning í Dönum. Það er þess vegna gott að varaformaður Sjálfstæðisflokksins spyrji um Evrópusambandið. Og það er gott að ríkisstjórnin sem nú er tekin við greiðir fyrir því með breytingum á stjórnarskrá að á næsta kjörtímabili sé hægt að fara í aðildarumsókn að Evrópusambandinu (Gripið fram í.) vegna þess að á ögurstundu í lífi þjóðar ber forustumönnum hennar skylda til þess að kanna til hlítar þá kosti sem hún á. Alveg sama hvað okkur finnst um Evrópusambandið ber okkur skylda til þess við þær aðstæður sem hér eru að kanna hvað í boði er. Það er til marks um forustukreppu Sjálfstæðisflokksins að hafa ekki getað tekið þá ákvörðun þó að vissulega hafi hv. þm. Bjarni Benediktsson lagt það til.

Við þurfum ekki bara að axla ábyrgð gagnvart þjóðinni, við þurfum líka að axla ábyrgð gagnvart þjóðunum. Við þurfum að senda skýr skilaboð um að við á Íslandi séum hætt í sjálfumglaða víkingaleiknum. Við þurfum að senda skýr skilaboð um að hér búi ábyrgt fólk sem vill axla ábyrgð í samstarfi við aðrar þjóðir, að hér sé ekki fólk sem haldi að það geti fengið allt fyrir ekki neitt, að það geti keypt allan heiminn út á krít. Framganga okkar á undanförnum árum hefur rúið okkur trausti, ekki bara innan lands heldur líka á hinum alþjóðlega vettvangi og þar með líka lánstrausti okkar. Í þeirri kreppu sem fram undan er munu ákvarðanir okkar sem teknar eru á þingi því ekki alltaf ráðast af því sem skynsamlegt er heldur af þeim takmörkunum sem fjárhagur okkar setur okkur vegna þess að í heiminum er ekki lengur til neinn sem er tilbúinn til þess að lána okkur til alls þess sem okkur þykir skynsamlegt.

Til þess að brjótast út úr þeirri stöðu er það sannfæring okkar í Samfylkingunni — sannfæring sem við munum fylgja fram í komandi kosningabaráttu og sannfæring sem ég trúi og treysti að allir stjórnmálaflokkar á Alþingi beri gæfu til að finna — að við getum lyft okkur yfir ágreininginn um Evrópusambandið og sameinast um það að loknum næstu kosningum að hefja aðildarviðræður. Þó að við megum læra það af sögu okkar að hér eru engar patentlausnir til á neinum vanda er það grundvallaratriði varðandi farsæld okkar og hvernig okkur gengur að vinna okkur út úr næstu árum að við sendum heiminum skýr skilaboð um að við höfum lært af reynslu okkar og að hér búi þjóð sem eftir mikla þenslu og mikið hrun hefur áttað sig á því að sígandi lukka er best.