136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

handfæraveiðar.

[10:49]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um hvað hann hyggist fyrir að því er það varðar að veita aukið frelsi til handfæraveiða.

Nú hagar málum þannig í okkar landi að á engu liggur meira en að reyna að auka atvinnu og ekki verður um það deilt að handfæraveiðar eru svokallaðar vistvænar veiðar. Þær hreyfa ekki við botninum og með þeim er eingöngu veiddur fiskur að því gefnu að fiskurinn sé sjálfur tilbúinn að fara á krók. Þeir sem hafa stundað sjó, m.a. sá sem hér stendur, og ég hygg að hæstv. ráðherra sjávarútvegsmála hafi einnig farið á handfæri í Þistilfirðinum, út frá Gunnarsstöðum og víðar, hafa upplifað það að þó að menn setji króka í sjó bítur fiskurinn ekki suma daga. Þær tillögur sem við höfum gert í Frjálslynda flokknum, að hér verði leyfðar afar takmarkaðar handfæraveiðar en þó öllum heimilar sem hafa til þess rétt og báta, atvinnuréttindi til að sigla þeim, og með mikilli takmörkun á afkastagetu með takmarkaðan fjölda handfærarúlla og einnig þann mannskap sem megi vera á viðkomandi bát, geta létt á því ástandi í atvinnumálum víða á landsbyggðinni og í sjávarbyggðunum sem er að skapast. Við skulum ekki gleyma því að fjöldi manna sem starfaði á byggingarmarkaði í Reykjavík er menn sem voru áður á sjó, kunna til verka og hafa þessi réttindi.

Ég spyr því hvaða afstöðu ráðherrann hafi til þess að skoða þessi mál upp á nýtt og taka afstöðu til m.a. þeirrar tillögu okkar að heimila handfæraveiðar takmarkaðar (Forseti hringir.) frá apríl til október.