136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

handfæraveiðar.

[10:51]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni fyrir spurninguna. Við höfum oft rætt þessi mál og þar á meðal og ekki síst þetta sem hann tekur hér upp, hvort möguleikar eru til að ýta undir og örva handfæraveiðar, svona neðsta lagið í útgerðinni ef svo má að orði komast. Það hefur margar kosti, það gagnast minni og minnstu sjávarbyggðunum, það eru vistvænar veiðar, orkukostnaður er lítill og því fylgir mikil atvinnusköpun þannig að það er að sjálfsögðu freistandi hugsun að reyna að stuðla að slíkri þróun.

Hvað hægt er að gera á innan við 80 dögum í þessum efnum er hins vegar erfitt að segja. Ég hef fyrst og fremst velt fyrir mér möguleikum á aðgerðum sem gætu strax komið að gagni innan gildandi fiskveiðiárs og tengjast hlutum eins og óunnum afla, að hann verði meira unninn innan lands, að hráefnið berist að landi sem ekki er aðgengilegt í dag og fleira í þeim dúr. Úthlutun byggðakvóta fyrir yfirstandandi fiskveiðiár er að vísu ólokið og ég þarf að fara yfir hvort þar eru einhverjir möguleikar sem tengjast þeim hlutum sem hv. þingmaður nefnir. Fram undan er að funda með greininni, bæði samtökum útgerðarmanna og smábáta, og þar ber þessa hluti eflaust á góma.

Varðandi stöðu þessara mála í heild er ástæða til að vekja athygli á því að fráfarandi ríkisstjórn hafði ætlað sér að skipa nefnd til að endurskoða löggjöfina og fiskveiðistefnuna en sú nefnd komst aldrei á koppinn þó að ríkisstjórnin lifði nú þetta. Þegar hana þraut örendið mun hafa verið í undirbúningi að koma þessari nefnd af stað, hraðinn á þeim málum var ekki meiri í tíð fráfarandi stjórnar. Hvað gerist á þeim skamma tíma sem nú fer í hönd fram að kosningum verður að koma í ljós en augljóst mál er að það verður eitt af stórum viðfangsefnum nýrrar ríkisstjórnar og Alþingis á nýju kjörtímabili að fara yfir þessi mál í heild sinni.