136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

handfæraveiðar.

[10:53]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir þessi svör en vek hins vegar athygli á því að hafi einhvern tíma verið þörf á því að taka til hendinni við að búa til atvinnutækifæri fyrir landsmenn er það núna þegar 13.000 manns eru atvinnulaus. Ef við gætum búið til kannski 100–200 störf við takmarkaðar handfæraveiðar á tímabilinu frá apríl til október held ég að það mundi líka létta á stöðu mála í landinu. Ég skora á hæstv. sjávarútvegsráðherra að taka þessi mál til gaumgæfilegrar athugunar með það að markmiði að taka ákvörðun fyrir þetta tímabil sem fram undan er, sem ég hygg að verði erfiðasta tímabilið í sögu okkar við að fylgjast með því hvernig atvinnuleysi hefur þróast og reyna að koma í veg fyrir að það haldi áfram í sömu veru og það hefur verið að þróast.