136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

greiðsluþátttaka almennings í heilbrigðisþjónustu.

[10:58]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vísa til þeirrar reynslu um dagsetningar að þær hafa ekki staðist. Settar hafa verið fram fjölmargar dagsetningar um nýtt kerfi sem ekki hafa reynst á rökum reistar. Það þekkir hv. þingmaður væntanlega af starfi í nefndinni.

Hins vegar vil ég segja að hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur unnið ágætt starf og margt sem fram hefur komið í þessari nefnd er mjög til góðs. Ég þekki starfið af eigin raun, hef setið í nefndinni sjálfur. Hins vegar hefur verið ágreiningur um ýmis grundvallaratriði sem starfið hefur verið reist á. Menn hafa verið að reyna að jafna kjörin innan sjúklingahópsins og finna jafnræði innan hópsins, að sjúklingur sem greiði lítið verði látinn greiða meira til að draga úr kostnaði sjúklings sem er með miklar byrðar.

Ég hef hins vegar verið á því máli, og við höfum verið það mörg hver, að það beri að setja þak á greiðslu sjúklinga almennt og horfa þá til allrar heilbrigðisþjónustunnar. Sá þáttur í þessu starfi hefur verið mjög að mínu skapi. Hins vegar verð ég að segja að umræðan hefur beinst í farveg sem ég hef verið mjög gagnrýninn á, þ.e. að búa til ákveðinn grunn en opna síðan á markaðsvætt kerfi. Þetta er nokkuð sem ég hef verið gagnrýninn á. Ég vil taka það besta úr þessu starfi og beina því í ásættanlegri farveg en þetta starf hefur verið að þróast í.