136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

greiðsluþátttaka almennings í heilbrigðisþjónustu.

[11:00]
Horfa

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að svörin voru ekki mjög skýr og raunar með þeim hætti að ég óttast að þetta kerfi taki ekki gildi fyrr en mun seinna en áætlað var. Nú veit ég í sjálfu sér ekki stöðu verkefnisins akkúrat í dag, en hefði talið að það væri komið nægilega langt til að hægt væri að hrinda því í framkvæmd.

Ég verð að benda á að verulegar miklar væntingar eru gerðar til kerfisins. Það veldur mér vonbrigðum ef hæstv. ráðherra ætlar að taka þá afstöðu að sjúkdómsgreining eigi að skipta máli í sambandi við kostnað sjúklinga. Að sjúklingar sem þjást af ólíkum sjúkdómum geti þurft að greiða mismikið, þótt sjúkdómarnir séu jafnþungbærir og langvinnir.

Mér finnst þetta vera röng nálgun hjá hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) og vona að hann hugleiði það og hafi kjark til að takast á við verkefnið þannig að það leiði til aukins jafnræðis í heilbrigðisþjónustu.