136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

Varnarmálastofnun og loftrýmiseftirlit.

[11:08]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég vil árétta ummælin sem ég lét falla áðan að málefni Varnarmálastofnunar eru til skoðunar. Ég sagði líka alveg hreinskilnislega að ég hef hallast áður að því í umræðum á Alþingi og reyndar í ríkisstjórn líka að hugsanlega ætti að skipa þeim málum með öðrum hætti.

Hv. þingmaður hefur fullan rétt til þess að koma hér og nefna þetta mál í tengslum við stefnu ríkisstjórnarinnar vegna þess að þó að kannski sé ekki hægt að segja að málefni Varnarmálastofnunar falli beinlínis undir björgunaraðgerðir vegna þeirrar stöðu sem uppi er í efnahagsmálum þá er það eigi að síður hárrétt hjá honum að þessi ríkisstjórn, eins og aðrar, þarf að leita allra ráða til að reyna að fara vel með fé og spara. Það er kórrétt hjá honum að þarna er um að ræða möguleika sem þarf verulega að skoða. Því hefur verið haldið fram í þessum sölum að með því að hafa annað fyrirkomulag mætti ná tilgangi stofnunarinnar en spara töluvert fé. Þetta verður skoðað (Forseti hringir.) en eins og ég sagði vil ég ekki á þessu stigi gefa nein loforð um (Forseti hringir.) stefnubreytingu. Sú skoðun er rétt að hefjast. (Forseti hringir.)