136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[11:24]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að óska hæstv. dómsmálaráðherra til hamingju með nýja embættið. Mig langar til að spyrja hana einnar spurningar. Spurningin er um það hver sé hinn efnislegi munur á því frumvarpi sem hæstv. dómsmálaráðherra mælti fyrir og því frumvarpi sem hv. þm. Björn Bjarnason flytur á þskj. 497. Þegar maður flettir þessum tveimur frumvörpum í gegn saman verður ekki betur séð en frumvarp hv. þm. Björns Bjarnasonar, fyrrum dómsmálaráðherra, hafi verið tekið af nýrri ríkisstjórn, ljósritað og orðinu skuldaaðlögun breytt í greiðsluaðlögun. (Gripið fram í.) Þetta er frumvarp sem samþykkt hafði verið út úr fyrri ríkisstjórn, samþykkt út úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins en var tekið í gíslingu í þingflokki Samfylkingarinnar í fyrra stjórnarsamstarfi. Nú er það lagt fram óbreytt með breyttri fyrirsögn og hæstv. ríkisstjórn lætur líta svo út að hér sé um nýtt mál að ræða. Í minni sveit var þetta kallað að skreyta sig með stolnum fjöðrum en látum það liggja á milli hluta. (Gripið fram í.) Ég vil fá að heyra það frá hæstv. dómsmálaráðherra hver er hinn efnislegi munur á því frumvarpi sem hún mælti fyrir og því frumvarpi sem hv. þm. Björn Bjarnason og þingflokkur Sjálfstæðisflokksins flytur á þskj. 497. Ég veit að hæstv. dómsmálaráðherra getur svarað þessari spurningu því á meðan þetta frumvarp var til meðferðar í dómsmálaráðuneytinu í ráðherratíð hv. þm. Björns Bjarnasonar var hæstv. dómsmálaráðherra settur ráðuneytisstjóri í því ráðuneyti. (Gripið fram í: Er þetta ekki höfundareign?)