136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[11:33]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Þakka fyrir það að það sé þá greinilegt, virðulegur forseti, að þessir flokkar eru algjörlega farnir að snúast gegn atvinnurekstrinum í landinu og ég vona svo sannarlega að þetta verði eitt af því sem verði tekið á í meðförum þingsins, að hægt verði að koma til móts við þá einstaklinga sem hafa tekið á sig að byggja upp samfélagið og hafa þess vegna oft tekið á sig miklar persónulegar skuldbindingar og lent í örðugleikum og jafnvel í örðugleikum vegna þess að lögpersónur, hlutafélög, hafa jafnvel hlaupið frá hlutunum og skilið undirverktaka eftir með miklar skuldbindingar sem hefur síðan leitt til þess að viðkomandi einstaklingur hefur farið í þrot.

Ég vil líka spyrja hver sé ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin telur sérstaka ástæðu til þess að þetta fari í gegnum héraðsdómstólana og þeir skipi sérstaka umsjónarmenn. Ég hef miklar áhyggjur af þessu því þarna er hugsanlega verið að skipa einhverja lögfræðinga úti í bæ og ég sé ekki alveg hvaða tengsl þeir mundu hafa við önnur (Forseti hringir.) réttarúrræði í dómskerfinu, t.d. sýslumenn sem eru þeir sem (Forseti hringir.) oft taka fyrst við beiðnum um fjárnám og vita hverjir það eru sem lenda í örðugleikum.